Eva Hauksdóttir er eini lögfræðingurinn, sem hefur reynt að gagnrýna rök mín í bókinni um landsdómsmálið, og er það lofsvert. Ég hafði á Facebook-vegg mínum bent á, að Jón Ólafsson prófessor hafði farið rangt með stjórnarskrárákvæðið um ráðherrafundi. Hann hafði sagt (í viðtali við Gunnar Smára Egilsson á Samstöðinni), að það ákvæði hljóðaði eitthvað á þá leið, að við sérstakar aðstæður, til dæmis þegar hættu bæri að höndum, bæri forsætisráðherra að halda ráðherrafundi. Þetta er fráleitt. Ákvæðið er aðeins, að halda skuli ráðherrafundi um mikilvæg málefni (ekki einu sinni að forsætisráðherra skuli halda þá). Eva skrifaði þá á Facebook-vegg minn:
Það þarf nú reyndar nokkuð einbeittan mistúlkunarvilja til að komast að þeirri niðurstöðu að efnahagshrun og aðrar yfirvofandi hættur teljist ekki mikilvæg stjórnarmálefni.
Ég svaraði:
Eins og þú átt að vita, snýst málið ekki um það, hver sé almenn merking orðasambandsins mikilvæg stjórnarmálefni, heldur um hitt, hver merkingin sé í stjórnarskránni. Og það er alveg skýrt, að upprunalega merkingin var: málefni, sem þurfti að leggja fyrir ríkisráð. Hvenær breyttist þessi merking, og af hverju varð enginn var við þessa breytingu? Ekki datt þeim Hermanni Jónassyni og Guðmundi Í. Guðmundssyni í hug, að þeir væru að brjóta stjórnarskrána, þegar þeir ákváðu að leggja ekki fyrir ráðherrafundi samninga við Bandaríkjamenn árið 1956? Og Eiríkur Tómasson færði prýðileg rök fyrir því, að þeir Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson hefði ekki verið að brjóta stjórnarskrána, þegar þeir lögðu ekki fyrir ráðherrafund opinberan stuðning Íslands við hernaðaraðgerðir Bandaríkjamanna í Írak árið 2003. Og þú horfir algerlega fram hjá því, að til eru málefni, sem í eðli sínu eiga ekki erindi á ráðherrafundi, af því að það myndi gera illt verra að setja þau þar á dagskrá, og hættan á bankaáhlaupi er einmitt eitt slíkt málefni. En aðalatriðið hér er þó það, að Jón Ólafsson fer algerlega rangt með stjórnarskrárákvæðið. Mátti telja hættu á bankahruni mikilvægt stjórnarmálefni í hversdagslegum og almennum skilningi? Já. Var rétt að taka það á dagskrá ráðherrafunda? Nei. Var merking orðasambandsins mikilvæg stjórnarmálefni í 17. gr. stjórnarskrárinnar almenns eðlis eða þröngs eðlis? Þröngs eðlis: málefni, sem atbeina þjóðhöfðingja þurfti til. Mátti leggja víðari merkinguna í orðasambandið? Hugsanlega, en þá hafði myndast vafi, sem sakborningurinn átti að njóta. Svaraðu þessu nú sem lögfræðingur.
Eva svaraði:
Ég tel augljóst að efnahagshrun verði að teljast mikilvægt stjórnarmálefni í skilningi 17. gr. stjórnarskrárinnar. Þar segir ekki að slík málefni séu aðeins þau sem atbeina þjóðhöfðingja þurfi til heldur er talað um
nýmæli í lögum OG um mikilvæg stjórnarmálefni.
Ég svaraði:
Það kemur skýrt fram í athugasemdum við stjórnarskrárfrumvarpið 1920, að átt var við þau málefni, sem borin væru upp fyrir konungi í ríkisráði. Þess vegna varð að setja þetta ákvæði. Það sést best á því, að auðvitað hljóta ráðherrar að
ræða á fundum sínum ýmis mikilvæg málefni, það þarf ekki að segja sérstakt ákvæði í stjórnarskrá um það. Það liggur í hlutarins eðli. Spurningin er auðvitað, hvort merking ákvæðisins hafi breyst. Hvenær hefði það verið? Það er önnur spurning, hvort vandi bankanna (ekki yfirvofandi hrun þeirra) hefði verið ræddur á ráðherrafundum, og það var gert, eins og margir ráðherrar báru vitni um fyrir landsdómi. Og síðan er þriðja spurningin, hvaða mál eru ekki til þess fallin að ræða á ráðherrafundum vegna eðlis þeirra. Sumar hættur eru þess eðlis, að þær aukast við það, að um þær sé rætt, og áhlaup á banka er ein slík hætta. Ég nefndi í bókinni þrjú dæmi, samninga við Bandaríkjamenn 1956 (en þá var sósíalisti í stjórn, og Sósíalistaflokkurinn var í nánum tengslum við valdaklíkuna í Kreml), stuðning við Bandaríkjamenn í Íraksstríðinu 2003 og tilkynningu um brottkvaðningu varnarliðsins sama ár. Ekkert af þessu var rætt á ráðherrafundum. Og úr því að þú talar um efnahagshrun (en hefðir átt að segja bankahrun), má benda á, að vissulega var talað um bankahrunið á fundum 30. september og 3. og 4. október. Davíð Oddsson gerði sér ferð á ráðherrafund 30. september til að segja mönnum, að bankarnir væru að hrynja. Viðbrögðin voru að heimta, að hann væri rekinn! Og einn ráðherrann flýtti sér að selja hlutabréf sín í bankanum fyrir marga tugi milljóna, sama dag! Í ljósi sögunnar er þetta stórfurðulegt.
Eva svaraði:
Það var enginn kóngur á Íslandi þegar núgildandi stjórnarskrá tók gildi. Landsdómur fjallaði um þessar málsástæður og komst að þeirri niðurstöðu að ekki væru efni til annars en að skýra 17. gr. eftir orðanna hljóðan. Það má auðvitað endalaust deila um það enda voru dómarar Landsdóms ekki á einu máli. Niðurstaðan liggur þó fyrir og var lagatúlkun Landsdóms staðfest af Mannréttindadómstóli Evrópu. Ég tel það mat þitt, að hættur aukist við það að vera ræddar, ekki hafa þýðingu í málinu.
Ég svaraði:
Setjum svo, að þú hafir rétt fyrir þér í þessari athugasemd og að skýra megi ákvæðið beint eftir orðanna hljóðan, en ekki í ljósi uppruna síns. En þá er að minnsta kosti vafi á túlkuninni, og Geir hefði átt að njóta vafans, eins og minni hlutinn benti raunar á í sératkvæði sínu. Ein helsta reglan í réttarfari er, að sakborningar eigi að njóta vafans. Viltu hafna þeirri reglu? Síðan er annað sjónarmið. Það er, að greinilega var til þess ætlast með lögum um landsdóm, að þeim væri aðeins beitt um mjög alvarleg brot, til dæmis landráð, enda kenndi Ólafur Lárusson nemendum sínum það (eins og einn þeirra rifjaði upp í umræðum um landsdóm). Ekki ætti að ákæra fyrir tæknileg atriði eða formsbrot. Þar nægðu umvandanir og ef til vill pólitískt vantraust. Setjum svo, eins og þú heldur fram, að þetta hafi verið brot. En þá var það hreint formsatriði, enda kemur fram í áliti meiri hlutans, að orðið hefði að sýkna Geir af þessum ákærulið, hefði hann aðeins sett vanda bankanna á dagskrá ráðherrafunda. Þriðja spurningin er: Hafði Eiríkur Tómasson þá rangt fyrir sér, þegar hann sagði, að þeir Davíð og Halldór hefði ekki brotið lög, þegar þeir ákváðu stuðning við Íraksstríðið árið 2003? Og þegar Hermann og Guðmundur Í. báru ekki samninga við Bandaríkin undir ráðherrafund 1956? Brutu þessir ráðherrar stjórnarskrána? Það væri gaman að fá svar þitt við þessum spurningum.