Ne bid in idem

Eitt merkasta og mikilvægasta lögmál réttarríkisins er Ne bis in idem, sem merkir bókstaflega: ekki aftur hið sama. Það felur í sér, að borgarar í réttarríki geti treyst því, að sama málið sé ekki rekið aftur gegn þeim, eftir að það hefur verið leitt til lykta. Þeir þurfi ekki að eiga yfir höfði sér þrotlausar málshöfðanir út af því sama. Því hefur ekki verið veitt athygli, að þetta lögmál var brotið í málarekstrinum gegn Geir H. Haarde, eins og ég bendi á í bók minni um landsdómsmálið.

Rannsóknarnefnd Alþingis tók til athugunar, hvort Geir hefði í aðdraganda bankahrunsins brotið það ákvæði stjórnarskrárinnar, að halda skyldi fundi um mikilvæg stjórnarmálefni, með því hvoru tveggja að boða ekki sjálfur til slíks fundar og veita ekki bankamálaráðherranum nægar upplýsingar til þess, að sá gæti neytt réttar síns til að óska slíks fundar. Komu þessar athugasemdir fram í bréfi nefndarinnar til Geirs í febrúar 2010, þar sem honum var gefinn kostur á að svara. Geir gerði það skilmerkilega og benti á, að um margt hefði verið rætt á ráðherrafundum, þar á meðal efnahagsvandann árið 2008, án þess að um það hefði verið bókað, að varasamt hefði verið að setja á dagskrá ráðherrafundar hinn sérstaka vanda bankanna og að oddviti samstarfsflokksins hefði átt að veita bankamálaráðherranum upplýsingar. Rannsóknarnefndin hvarf þá frá því að gera þetta að sérstöku ásökunarefni á hendur Geir.

Aðalráðgjafi þingmannanefndar um viðbrögð við skýrslu rannsóknarnefndarinnar, Jónatan Þórmundsson, bætti hins vegar þessu ásökunarefni við aftur. Þótt vissulega hefði rannsóknarnefndin hvorki ákæruvald né dómsvald, voru rannsóknarheimildir hennar svo rúmar og afleiðingar fyrir menn af niðurstöðum hennar svo miklar, að líkja mátti henni við dómstól (enda fengu rannsóknarnefndarmennirnir með lögum sömu friðhelgi og dómarar). Því má segja, að með því að vilja ákæra Geir fyrir að hafa brotið stjórnarskrána hafi þingmannanefndin brotið lögmálið Ne bis in idem.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 7. janúar 2023.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband