25.12.2022 | 10:45
Vanhæfi sökum fyrri árekstra
Þegar Geir H. Haarde var leiddur fyrir landsdóm 5. mars 2012, sakaður um refsiverða vanrækslu í aðdraganda bankahrunsins, stóð hann andspænis tveimur hæstaréttardómurum, sem áttu eflaust erfitt með að vera óhlutdrægir í hans garð, eins og ég leiði rök að í nýrri bók um landsdómsmálið. Þeir Eiríkur Tómasson og Eggert Óskarsson höfðu árið 2004 sótt um embætti hæstaréttardómara, sem Geir H. Haarde veitti þá sem settur dómsmálaráðherra. Hann skipaði hvorugan þeirra í embættið, heldur Jón Steinar Gunnlaugsson, og var mikil heift í málinu. Eiríkur sagði til dæmis í viðtali við Fréttablaðið 30. september 2004, að með þessari embættisveitingu hefði Geir grafið undan réttinum. Nú væru tveir sjálfstæðismenn hæstaréttardómarar.
Eiríkur gat þess ekki, að á Íslandi hafa margir lögfræðingar verið skipaðir hæstaréttardómarar, þótt þeir hafi áður haft afskipti af stjórnmálum. Einn þeirra var Benedikt Sigurjónsson. Hann var harður Framsóknarmaður, og ég hafði oft leitað ráða hjá honum um lögfræðileg efni, sagði Steingrímur Hermannsson, þegar hann minntist dómsmálaráðherratíðar sinnar. Um þetta hlaut Eiríki að vera kunnugt, því að hann var þá einmitt aðstoðarmaður Steingríms í dómsmálaráðuneytinu. Þeir Eiríkur og Eggert voru í þeim meiri hluta landsdóms, sem vildi sakfella Geir fyrir aukaatriði.
Þriðji dómandinn í landsdómi, Brynhildur Flóvenz, hafði kvartað undan því við danskt blað 1. febrúar 2009, að eftir bankahrunið yrði hún í fjölskylduboðum að reiða fram fisk, en ekki hreindýrasteik. Hún væri þó reiðubúin að fórna öllum steikum, ef kreppan felur í sér uppgjör við klíkuveldið og fleiri konur í forystu. Hér kenndi Brynhildur klíkuveldi og karlmennskuhugarfari um bankahrunið, en nærtækasti fulltrúi þessa hvors tveggja í huga hennar var væntanlega Geir H. Haarde forsætisráðherra. Brynhildur var í þeim meiri hluta landsdóms, sem vildi sakfella Geir fyrir aukaatriði.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 24. desember 2022.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 26.12.2022 kl. 16:51 | Facebook