22.10.2022 | 14:16
Rökin fyrir konungdæmi
Nýlegt lát hins ágæta breska þjóðhöfðingja Elísabetar II. leiðir hugann að forvitnilegri spurningu: Er það tilviljun, að þau sjö lönd Evrópu, þar sem stjórnarfar er einna best, skuli öll vera konungdæmi? Þau eru Stóra Bretland, Holland, Belgía, Lúxemborg, Svíþjóð, Danmörk og Noregur. Eins og ég ræði í bók minni um Tuttugu og fjóra frjálslynda íhaldsmenn, færir Edmund Burke rök fyrir konungdæmi sem einum þættinum af mörgum í að tryggja stöðugleika, samfelldni og gagnkvæmt aðhald. Hann nefnir líka kirkjuna, aðalinn og lýðstjórnina. Hver og ein af þessum stofnunum leggur sitt af mörkum til að halda uppi fjölbreyttu menningarlífi, segir Burke. Ef við trúum því, að Guð sé ekki til, þá verður allt leyfilegt. Kirkjan veitir okkur því siðferðilegt aðhald. Gott er einnig, að þeir, sem skara fram úr, fái titla og ekkert að því, að slíkir titlar séu arfgengir, þótt aðall eigi ekki að verða lokaður sérréttindahópur.
Kosturinn við konungdæmið er, að þá stendur þjóðhöfðinginn utan skarkalans á torginu og getur í senn orðið sameiningartákn þjóðarinnar, eins og Elísabetu drottningu tókst öðrum betur, og rödd hennar, þegar þess þarf með. Í venjulegu landi er til dæmis allt fullt af hversdagshetjum, sem eiga skilið viðurkenningu. Auðvitað er tilkomumeira að taka við heiðursmerki fyrir björgunarafrek í konungshöll en á skrifstofu við umferðargötu. Þá tengjast menn sögunni á þann hátt, að hátíðarbragur verður á. Eitt ráðið til að tryggja gagnkvæmt aðhald er að skipta ríkinu, mættinum og dýrðinni upp á milli stofnana. Þá geta stjórnmálamennirnir átt ríkið, markaðurinn máttinn og konungsættin dýrðina.
Hitt er annað mál, að tvær þjóðir í Norðurálfunni hljóta vegna sögulegrar arfleifðar sinnar að vera lýðveldi fremur en konungdæmi, Svisslendingar og Íslendingar. Apud illos non est rex, nisi tantum lex, Hjá þeim er enginn konungur, aðeins lög, sagði Adam frá Brimum um Íslendinga.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 17. september 2022.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook