22.10.2022 | 13:37
Óskhyggjan tapaði

Stjórnarskrárfrumvarpið í Síle var líkast fundargerð á málfundi vinstri manna, en þeir eru sem kunnugt er iðnir við að semja óskalista. Minnti það á hið furðulega ferli á Íslandi, þegar þjóðin var hálflömuð eftir bankahrunið 2008 og vinstri menn hugðust nota tækifærið til að bylta stjórnskipun landsins. Kosið var á stjórnlagaþing allt framhleypnasta fólk landsins, tíðir gestir í spjallþáttum og þá með ráð undir rifi hverju. Kjörsókn var þó dræm, aðeins 36,8%. Framkvæmd kosninganna var svo gölluð, að Hæstiréttur neyddist til að ógilda þær. Þá ákvað vinstri stjórnin að tilnefna sama fólkið í svokallað stjórnlagaráð. Í þjóðaratkvæðagreiðslu um drög ráðsins haustið 2012 kusu 48,4% kjósenda, og vildu tveir þriðju taka mið af drögunum. Það merkir, að aðeins þriðjungur atkvæðisbærra manna vildi gera það.
Til samanburðar má nefna, að í þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrána vorið 1944 kusu 98,6% kjósenda, og vildu 98,5% staðfesta stjórnarskrárfrumvarpið, sem þá var lagt fyrir. Stjórnarskráin íslenska var fyrst sett á þúsund ára afmæli byggðar í landinu 1874 og er náskyld stjórnarskrá Noregs frá 1814 og Danmerkur frá 1849. Hefur hún í aðalatriðum reynst vel. Hún var endurskoðuð rækilega árið 1995, og varð sátt á þingi um þá endurskoðun. Var þá aðallega hert á mannréttindaákvæðum.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 10. september 2022.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook