21.10.2022 | 07:45
Yndisleg húngursneyð
Úkraínumenn hafa verið óheppnari með nágranna en Íslendingar. Einn hræðilegasti atburður tuttugustu aldar í Evrópu var hungursneyðin í Úkraínu árin 19321933. Talið er, að fjórar milljónir manna hafi þá soltið í hel. Orsök hennar var, að Kremlverjar vildu koma á samyrkju, en bændur streittust á móti. Kremlverjar brugðust við með því að gera mestalla uppskeru þeirra upptæka. Þeir reyndu síðan að koma í veg fyrir allan fréttaflutning af hungursneyðinni.
Tveir breskir blaðamenn í Moskvu, Malcolm Muggeridge og Gareth Jones, leituðust þó við að fræða heimsbyggðina á því, sem væri að gerast. Hersveitir Stalíns höfðu breytt blómlegri byggð og frjósamasta landi í sorglega auðn, hafði Morgunblaðið eftir Muggeridge 19. júlí 1933. Vísir birti 2. ágúst lýsingu Jones á hungursneyðinni. Nýlega var gerð kvikmyndin Mr. Jones, þar sem lýst var baráttu hans fyrir að fá að segja sannleikann, en fréttaritari New York Times í Moskvu, Walter Duranty, tók fullan þátt í því með Kremlverjum að kveða niður frásagnir af þessum ósköpum.
Íslenskir stalínistar létu ekki sitt eftir liggja. Í október 1934 andmælti Halldór Kiljan Laxness skrifum Morgunblaðsins í tímaritinu Sovétvininum: Ég ferðaðist um Ukraine þvert og endilángt í hungursneyðinni 1932. Það var yndisleg húngursneyð. Hvar sem maður kom, var alt í uppgángi. Vitnaði hann óspart í Duranty.
Þótt ótrúlegt megi virðast, eiga þeir Stalín, Laxness og Duranty enn sína liðsmenn. Í kennslubókinni Nýjum tímum eftir Gunnar Karlsson og Sigurð Ragnarsson, sem kom út árið 2006, var ekki minnst einu orði á hungursneyðina, heldur aðeins sagt, að Stalín hefði komið á samyrkju í óþökk mikils hluta bænda.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 2. apríl 2022.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.5.2023 kl. 15:19 | Facebook