21.10.2022 | 07:43
Sjálfsákvörðunarréttur þjóða
Þegar Úkraínumenn lýstu yfir sjálfstæði árið 1991, voru þeir að feta í fótspor margra annarra Evrópuþjóða. Norðmenn höfðu sagt skilið við Svía árið 2005, af því að þeir voru og vildu vera Norðmenn, ekki Svíar. Finnar höfðu sagt skilið við Rússa árið 1917, af því að þeir voru og vildu vera Finnar, ekki Rússar. Íslendingar höfðu stofnað eigið ríki árið 1918, af því að þeir voru og vildu vera Íslendingar, ekki Danir. En hvað er þjóð? Algengasta svarið er, að það sé hópur, sem tali sömu tungu. En það er ekki rétt. Bretar og Bandaríkjamenn tala sömu tungu, en eru tvær þjóðir. Svisslendingar eru ein þjóð, en þar eru töluð fjögur mál.
Önnur skilgreining er eðlilegri. Þjóð er heild manna, sem vegna samkenndar og fyrir rás viðburða vill stofna saman og halda uppi eigin ríki. Það er viljinn til að vera þjóð, sem ræður úrslitum. Franski rithöfundurinn Ernest Renan orðaði þessa hugmynd vel á nítjándu öld, þegar hann sagði, að þjóðerni væri dagleg allsherjaratkvæðagreiðsla. Hann var talsmaður þjóðlegrar frjálshyggju, en hún bætir úr þeim galla á hinni annars ágætu hugmynd um frjálsan, alþjóðlegan markað, þar sem menn skiptast á vöru og þjónustu öllum í hag, að þar er ekki gert ráð fyrir neinni sögu, neinni samkennd, neinu sjálfi. Menn þurfa ekki aðeins að hafa. Þeir þurfa líka að vera.
Menn eru ekki aðeins neytendur, heldur líka synir eða dætur, eiginmenn eða eiginkonur, feður eða mæður. Jafnframt eiga þeir dýrmætt sálufélag við samlanda sína, við Íslendingar við þær þrjátíu og fimm kynslóðir, sem byggt hafa þetta land á undan okkur, Úkraínumenn við ótal forfeður sína og formæður. Baráttan í Úkraínu þessa dagana er um sjálfsákvörðunarrétt þjóða.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 26. mars 2022.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook