Skekkjur Jóns Ólafssonar

Í verkum Jóns Ólafssonar um íslensku kommúnistahreyfinguna er mikið um firrur, gloppur og villur. Þar er líka talsvert um skekkjur, en þær má kalla ástæðulausa ónákvæmni og ómarkvissa frásögn. Jón fer til dæmis iðulega rangt með nöfn bóka og manna. Í Kæru félögum frá 1999 verður Ófriður í aðsigi eftir Þór Whitehead að Óveðri í aðsigi (bls. 330), Örlaganótt yfir Eystrasaltslöndum eftir Ants Oras breytist í Sólmyrkva í Eystrasaltslöndum (bls. 286), Haavard Langseth ummyndast í Haavard Langeseth (bls. 38 og 340), Olav Vegheim í Olaf Vegheim (bls. 23) og William Gallacher í William Callagher (bls. 123, 125 og 334).

Tímatal Jóns er einnig losaralegt. Hann segir, að Langseth hafi komið til Íslands 1928 og 1929 (bls. 38 og 340), en hann kom hvorugt það ár til Íslands, svo að vitað sé, heldur árið 1930. Hann segir, að þing kommúnistaflokks Ráðstjórnarríkjanna hafi verið háð í mars 1956 (bls. 175), en það stóð frá 14. til 24. febrúar. Jón segir í Sögu 2007 (bls. 107), að bréf, sem Einar Olgeirsson sendi Komintern, Alþjóðasambandi kommúnista, hafi verið sent snemma í ágúst 1938, en það er dagsett 21. ágúst. Jón segir í Appelsínum frá Abkasíu, að Finnland hafi fengið sjálfstæði 1918 (bls. 285), en það gerðist í desember 1917. Þessi skekkja hefur slæðst inn í bók Kjartans Ólafssonar, Drauma og veruleika. Jón segir á sama stað, að vetrarstríðið hafi hafist haustið 1939, en það hófst um hávetur, í nóvemberlok 1939, eins og nafnið sýnir raunar.

Meinlegasta skekkja Jóns er, þegar hann segir í Kæru félögum frá bréfi, sem sent var frá Íslandi til Stokkhólms í janúar 1921, en undir það er skrifað „Sillinn“. Jón dró þá ályktun (bls. 22), að hér væri á ferð sænski kommúnistinn Hugo Sillén, og væri athyglisvert, hversu snemma erlendir kommúnistar létu sig varða hina íslensku hreyfingu. En bréfritarinn var auðvitað Hendrik S. Ottósson, sem gekk undir nafninu „Sillinn“ meðal vina sinna. Þessi skekkja hefur slæðst inn í bók Þorleifs Friðrikssonar, Við brún nýs dags.

Jón reynir að gera lítið úr slíkum leiðréttingum og kvartar opinberlega undan „smásmygli“ minni og „geðvonsku“. En flestar þessar villur eru ekki meinlausar prentvillur, heldur stafa þær af hirðuleysi. Jón nennir bersýnilega ekki að standa upp frá tölvu sinni og fletta upp í bókum.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 13. mars 2021.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband