9.1.2021 | 08:04
Árásirnar á þinghúsin
Heimsbyggðin fylgdist agndofa með því, er æstur lýður braust 6. janúar inn í bandaríska þinghúsið. Er með ólíkindum, að hann hafi komist svo langt. Það er fróðlegt siðferðilegt úrlausnarefni, hver ber ábyrgðina. Auðvitað ber þessi óþjóðalýður, eins og Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra kallaði hann réttilega, mestalla ábyrgðina, en einhverja sök á einnig Donald Trump Bandaríkjaforseti. Um slíka skipta sök hefur einn kennari minn í Oxford, David Miller, skrifað bók, National Responsibility and Global Justice (2007), sem ég nýtti mér í skýrslu minni um bankahrunið. Miller telur, að ræðumaður á útifundi beri nokkra ábyrgð á gerðum hóps, sem grípur til ofbeldis eftir að hafa hlustað á æsingaræðu hans, jafnvel þótt sjálfur taki hann ekki beinan þátt í því ofbeldi.
Eftir þeim mælikvarða báru samkennarar mínir, þeir Þorvaldur Gylfason og Gylfi Magnússon, nokkra ábyrgð á síendurteknum árásum óþjóðalýðs á Alþingishúsið í bankahruninu 20082009 eftir æsingaræður þeirra á fundum, og með sömu rökum ber Trump nokkra ábyrgð á innrásinni í bandaríska þinghúsið. Á Íslandi er þó sambærilegasta dæmið, þegar óeirðaseggir réðust á Alþingishúsið 30. mars 1949, eftir að Einar Olgeirsson hafði látið þau boð út ganga, að þingmenn sósíalista væru fangar inni í húsinu. (Var Einar ákærður og dæmdur fyrir aðild að árásinni.)
Eflaust minna stuðningsmenn Trumps á, að margir forystumenn Lýðræðisflokksins (Demókrata) sættu sig ekki við úrslit forsetakjörsins 2016, heldur siguðu lögreglu á forsetann og helstu fylgismenn hans, jafnframt því sem þeir höfðuðu fáránlegt mál á hendur honum til embættismissis. Þeir geta líka bent á óeirðirnar í mörgum ríkjum Bandaríkjanna á síðasta ári, þar sem vinstriöfgamenn gengu óáreittir berserksgang. En þótt þetta kunni að einhverju leyti að skýra innrásina í þinghúsið bandaríska, afsakar það hana ekki. Í rótgrónum lýðræðisríkjum er ofbeldi óafsakanlegt.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 9. janúar 2021.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook