Nýr Birkiland?

Árið 1948 gaf Jóhannes S. Birkiland út bókina Harmsögu æfi minnar: Hvers vegna ég varð auðnuleysingi. Þjóðin brosti, ef til vill ekki alltaf góðlátlega, og Megas söng um hann vísur. Árið 2020 gefur Ólína Þ. Kjerúlf út bókina Spegil fyrir skuggabaldur: atvinnubann og misbeiting valds. Undirtitill hennar gæti verið: Hvers vegna enginn vill ráða mig í vinnu. Og þjóðin andvarpar og spyr, hvort blessuð konan ætti ekki að líta í eigin barm í leit að skýringu.

Í harmatölu sinni nefnir Kjerúlf þá kenningu, að bækur Halldórs Laxness hafi ekki komið út í Bandaríkjunum á fjórða og fimmta áratug síðustu aldar, af því að íslensk og bandarísk stjórnvöld hafi lagst gegn því. Þessu til stuðnings nefnir hún ýmis skjöl um samskipti íslenskra og bandarískra ráðamanna frá árunum 1947–1949, sem fundist hafa í bandarískum söfnum.

Eins og ég benti á í Morgunblaðinu í gær, föstudaginn 27. nóvember, eru þau skjöl alls ekki um neitt slíkt. Þau eru um áhuga stjórnvalda á að rannsaka, hvort Laxness hefði vantalið tekjur frá Bandaríkjunum í íslensku skattframtali sínu og brotið reglur um skil á gjaldeyristekjum, og reyndist svo hvort tveggja vera.

Brella Kjerúlfs er að veifa með fyrirgangi og þjósti skjölum um allt annað efni en verið er að tala um. Hún fetar þannig ekki aðeins í fótspor Birkilands, heldur líka Ólafs Friðrikssonar Möllers, kaffihúsaspekings í Reykjavík og eins helsta frumkvöðuls jafnaðarstefnu á Íslandi. Ungur og óreyndur vinstri maður ætlaði eitt sinn í framboði. Hann spurði Ólaf, hvernig hann skyldi bregðast við frammíköllum á fundum. „Uss, það er ekkert mál,“ svaraði Ólafur. „Þú gerir bara það sama og ég gerði einu sinni á fundi, þegar einhver náungi fór að kalla fram í fyrir mér. Þá hvessti ég á hann augun og sagði hátt og snjallt: Þú varst ekki svona borubrattur forðum, þegar þú grést úti í Viðey! Maðurinn snarþagnaði. Hann hafði sennilega aldrei komið út í Viðey. En við þessu átti hann ekkert svar.“

Þeir Jóhannes Birkiland og Ólafur Möller enduðu að vísu báðir á Kleppi. Sem betur fer hefur viðhorf okkar til furðufugla breyst.

(Fróðlieiksmoli í Morgunblaðinu 28. nóvember 2020.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband