Minningar um Milton

23.6 FriedmansinChinaAð mér sóttu á dögunum minningar um Milton Friedman, einn virtasta hagfræðing tuttugustu aldar. Ég hitti hann fyrst á fundi Mont Pelerin-samtakanna, alþjóðasamtaka frjálslyndra fræðimanna, í Stanford í Kaliforníu haustið 1980. Ég sagði honum þá, að ég hefði ósjaldan varið hann fyrir árásum íslenskra vinstri manna. „Þú átt ekki að verja mig,“ sagði Friedman með breiðu brosi. „Þú átt að verja hugsjónir okkar.“

Næst hitti ég Friedman á þingi Mont Pelerin-samtakanna í Berlín 1982. Hann sagði mér þá af ferð sinni til Kína skömmu eftir fundinn í Stanford. Hann hafði snætt hádegisverð með kínverskum ráðherra, sem kvaðst vera á leið til Bandaríkjanna. Hvaða ráðherra sæi þar um dreifingu hráefna? Friedman svaraði: „Þú skalt fara á hrávörumarkaðinn í Síkagó.“ Ráðherrann varð eitt spurningamerki í framan. Friedman reyndi að útskýra fyrir honum, að á frjálsum markaði sæi ríkið ekki um dreifingu hráefna. Þau dreifðust um hagkerfið í frjálsum viðskiptum. Friedman rifjaði líka upp ferð sína til Indlands 1962. Hann kom þar að, sem verkamenn voru að grafa skipaskurð með skóflum. Friedman spurði: „Af hverju notið þið ekki jarðýtur? Það væri miklu hagkvæmara.“ Leiðsögumaður hans svaraði: „Þú skilur þetta ekki. Þetta skapar atvinnu.“ Friedman var ekki lengi að bregðast við: „Nú, ég hélt, að þið væruð að grafa skipaskurð. En ef þið ætlið að skapa atvinnu, af hverju notið þið ekki matskeiðar?“

Friedman kom til Íslands á mínum vegum haustið 1984. Matthías Á. Mathiesen viðskiptaráðherra hélt honum boð í Ráðherrabústaðnum. Ég stóð við hlið Friedmans og kynnti hann fyrir gestum. Einn þeirra var seðlabankastjóri. Ég gat ekki stillt mig um að segja: „Jæja, prófessor Friedman. Hér er íslenskur seðlabankastjóri. Hann yrði nú atvinnulaus, ef kenningar yðar yrðu framkvæmdar.“ Friedman brosti kankvís og sagði: „Nei, hann yrði ekki atvinnulaus. Hann yrði aðeins að færa sig í arðbærara starf.“ Allir hlógu, líka seðlabankastjórinn. Eitt kvöldið héldu íslenskir kaupsýslumenn og iðnjöfrar Friedman veglega veislu. Einn þeirra spurði Friedman: „Hver er að yðar dómi mesta ógnin við kapítalismann?“ Friedman svaraði: „Horfið í spegil. Það eru kapítalistarnir, sem ógna kapítalismanum. Þeir vilja, að ríkið verji þá gegn samkeppni.“

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 10. október 2020.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband