23.9.2020 | 12:27
Róbinson Krúsó og viðarborðið
Franski rithöfundurinn Frédéric Bastiat mælir gegn hvers kyns viðskiptatálmunum af mikilli fimi. Ég hef þegar rifjað hér upp sögur hans af brotnu rúðunni og bænarskrá kertasteyparanna, en þar sýnir hann, hversu fráleitt er að neita sér um þann ávinning, sem hlotist getur af frjálsum viðskiptum. Þriðja sagan er um Róbinson Krúsó á eyðieyjunni.
Bastiat rifjar upp, að Krúsó vill smíða sér viðarborð, en hefur engin ráð til þess önnur en höggva tré, setja það fyrir framan sig og hefla það sæmilega flatt báðum megin með öxi sinni. Þetta tekur hann tvær vikur, og á meðan verður hann að lifa á matarforða sínum, og öxi hans missir bit.
En Bastiat bætir við söguna. Þegar Krúsó er að hefja öxina á loft, rekur hann augun í, að öldurnar hafa kastað viðarborði upp á ströndina. Hann verður hinn fegnasti og ætlar niður á strönd að hirða borðið. Þá man hann skyndilega eftir rökum tollverndarmanna. Ef hann tekur borðið, þá kostar það hann aðeins ferðina og burðinn með borðið. En ef hann gerir sér borð með öxi sinni, þá skapar það atvinnu handa honum í tvær vikur, og hann fær um leið tækifæri til að brýna öxina, jafnframt því sem hann notar matarforða sinn og þarf að útvega sér nýjan. Þess vegna er skynsamlegast að fleygja borðinu aftur í sjóinn.
Vitaskuld er breytni Krúsós fráleit. En Bastiat bendir á, að tollverndarmenn noti jafnan rök af sömu ætt. Þeir vilji tálma innflutning vöru, sem sé ódýrari en hin innlenda. Með því séu þeir að neita sér um þann ávinning, sem reki á fjörur okkar af því, að sumir geti framleitt einhverja vöru ódýrar en við eða landar okkar. Þeir breyta í raun eins og Krúsó, þegar hann fleygir viðarborðinu aftur í sjóinn og hamast þess í stað við að hefla með ófullkomnu verkfæri nýtt viðarborð á tveimur vikum. Bastiat bendir einnig á, að Krúso hefði getað notað þessar tvær vikur til að gera sér lífið þægilegra eða skemmtilegra. Enn eru þeir þó til, sem neita að skilja hagkvæmni verkaskiptingar og frjálsra viðskipta.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 7. mars 2020.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook