Frá Kænugarði

Dagana 7.–10. nóvember 2019 sat ég ráðstefnu evrópskra íhaldsmanna og umbótasinna, sem haldin var í Kænugarði í Úkraínu og helguð sambandi Úkraínu við önnur Evrópulönd. Ég var beðinn um að segja nokkur orð á ráðstefnunni, og benti ég fyrst á, að Ísland og Úkraína væru mjög ólík lönd, en bæði þó á útjaðri Evrópu. Ég kvað eðlilegt, að Úkraínumenn hefðu viljað stofnað eigið ríki. Þeir væru sérstök þjóð, þótt þeim hefði löngum verið stjórnað frá Moskvu. Norðmenn hefðu skilið við Svía 1905 og Íslendingar við Dani 1918 af sömu ástæðu.

Í ræðu minni rakti ég, hvernig stækkun markaða með auknum alþjóðaviðskiptum auðveldaði smækkun ríkja: Litlar þjóðir með opin hagkerfi gætu notið góðs af hinni alþjóðlegu verkaskiptingu á heimsmarkaðnum. Því stærri sem markaðurinn væri, því minni gætu ríkin orðin, enda hefði ríkjum heims snarfjölgað á seinna helmingi tuttugustu aldar.

Nú er Úkraína auðvitað engin smásmíði. En landið er samt tiltölulega lítið í samanburði við Rússland, sem nýlega hefur lagt undir sig vænan hluta landsins með hervaldi. Vandi tiltölulega lítilla ríkja með stóra og ásælna granna væri takmarkaður hernaðarmáttur. Að sumu leyti mætti leysa slíkan vanda með bandalögum eins og gert hefði verið með Atlantshafsbandalaginu. En sú lausn væri ekki alltaf í boði, og til væri önnur: að reyna að breyta Rússlandi innan frá. Með því væri ekki átt við, að landinu væri brugguð einhver launráð, heldur að Úkraína veitti með öflugu atvinnulífi og örum framförum svo gott fordæmi, að Rússar tækju upp betri siði. Þjóðirnar eru náskyldar og ættu að vera vinir.

Það fór til dæmis ekki fram hjá kínverskum kommúnistum, hversu örar framfarir urðu eftir miðja tuttugustu öld í öðrum kínverskum hagkerfum, í Hong Kong og á Singapúr og Taívan. Danir og Svíar hefðu á liðnum öldum barist hvorir við aðra, en nú væri stríð milli þessara norræna þjóða allt að því óhugsandi. Vonandi rynni slíkur dagur upp í samskiptum Úkraínumanna og Rússa.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 16. nóvember 2019.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband