Tvær gátur Njáls sögu

Gunnar snýr afturBrennu-Njáls saga er ekki aðeins lengsta Íslendingasagan, heldur líka sú, sem leynir helst á sér. Ég hef lengi velt fyrir mér tveimur gátum sögunnar í ljósi þeirrar leiðarstjörnu hagfræðinnar, að óskynsamleg hegðun kann að verða skiljanleg, þegar gætt er að þeim skorðum, sem söguhetjum eru settar, valinu um vondan kost eða óþolandi.

Ein gátan er, hvers vegna Gunnar sneri aftur, rauf með því sátt við andstæðinga sína og kostaði til lífinu. Í kvæðinu Gunnarshólma skýrir Jónas Hallgrímsson þetta með ættjarðarást. Sú tilgáta er tímaskekkja, því að sú tilfinning var varla til á Þjóðveldisöld. Í formála Brennu-Njáls sögu skýrir Einar Ól. Sveinsson atvikið með metnaði Gunnars. Hann hafi ekki viljað auðmýkja sig. En sú tilgáta stríðir gegn eðli Gunnars samkvæmt sögunni. Sennilegast er, þegar honum varð litið að Hlíðarenda, þar sem Hallgerður sat eftir, að hann hafi ekki viljað skilja hana eina eftir. Sagan geymir vísbendingu: Í 41. kafla segir, að Hallgerður hafi þjónað Sigmundi Lambasyni „eigi verr en bónda sínum“. Hjónabandið var Gunnari og Hallgerði „báðum girndarráð“, en Gunnar hafði samt fulla ástæðu til að vantreysta Hallgerði.

Önnur gátan er, hvers vegna Njáll hörfaði inn í húsið á Bergþórshvoli, þótt hann vissi, að með því gæfi hann umsátursmönnum færi á brennu. Líklega fyrirgaf Njáll aldrei sonum sínum víg Höskuldar Hvítanessgoða, sem hann unni heitar en þeim. Hann taldi þá eiga refsingu skilið, þótt hann gæti sjálfur ekki framkvæmt hana, þar eð hann var faðir þeirra. Sagan geymir vísbendingu, þegar Njáll segir í 129. kafla, að Guð muni „oss eigi láta brenna bæði þessa heims og annars“. Brennan var öðrum þræði syndaaflausn Njáls fyrir hönd sona hans, þótt hann sæi ef til vill ekki fyrir, að Bergþóra og Þórður Kárason myndu vilja fylgja honum hinsta spölinn.

Við greiningu á aðstæðum verður óskynsamleg hegðun skyndilega skiljanleg. Hinn kosturinn var verri: Gunnar þoldi ekki tilhugsunina um, að Hallgerður lægi með öðrum mönnum. Njáll þoldi sonum sínum ekki að hafa vegið Höskuld Hvítanessgoða og vildi milda refsingu Guðs.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 10. ágúst 2019. Teikningin er eftir Jón Hámund og skreytir útdrátt minn á ensku úr Njáls sögu, The Saga of Burnt Njal.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband