8.9.2018 | 09:35
Gylfi veit sínu viti
Dagana 30.-31. ágúst skipulagði Gylfi Zoëga prófessor ráðstefnu í Háskóla Íslands um bankahrunið 2008 með ýmsum kunnum erlendum fyrirlesurum og nokkrum íslenskum, þar á meðal þeim Þorvaldi Gylfasyni, Stefáni Ólafssyni og Guðrúnu Johnsen. Þótt Gylfi fengi styrki til ráðstefnunnar frá Háskólanum og Seðlabankanum var hún lokuð og á hana aðeins boðið sérvöldu fólki. Íslendingarnir sem töluðu á ráðstefnunni voru nánast allir úr Hrunmangarafélaginu, sem svo er kallað, en í það skipa sér þeir íslensku menntamenn sem líta á bankahrunið sem tækifæri til að skrifa og tala erlendis eins og Íslendingar séu mestu flón í heimi og eftir því spilltir.
Þegar að er gáð var þó sennilega skynsamlegt af Gylfa Zoëga að hafa ráðstefnuna lokaða. Það var aldrei að vita upp á hverju sumir íslensku fyrirlesararnir hefðu getað tekið í ræðustól. Þorvaldur Gylfason hefur til dæmis látið að því liggja á Snjáldru (Facebook) að þeir Nixon og Bush eldri hafi átt aðild að morðinu á Kennedy Bandaríkjaforseta 1963 og að eitthvað hafi verið annarlegt við hrun að minnsta kosti eins turnsins í Nýju Jórvík eftir hryðjuverkin haustið 2001. Ein athugasemd Þorvaldar er líka fleyg: Sjálfstæðismenn sem tala um lýðræði orka nú orðið á mig eins og nasistar að auglýsa gasgrill.
Einnig kann að hafa verið skynsamlegt af Gylfa Zoëga að velja aðallega Íslendinga úr Hrunmangarafélaginu til að tala á ráðstefnunni. Þegar hann kemur sjálfur fram við hliðina á þessu æsta og orðljóta fólki, sem hrindir venjulegum áheyrendum frá sér með öfgum, virðist hann í samanburðinum vera dæmigerður fræðimaður, hófsamur og gætinn. Var leikurinn ef til vill til þess gerður?
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 8. september 2018.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook