Leynifundur hjá Hrunmangarafélaginu

Eftir bankahrunið reyndu ýmsir þeir, sem höfðu að eigin dómi lítt notið sín áður, að gera sér mat úr því, ekki síst með því að níða niður landa sína erlendis. Í þessum hópi, sem ég hef kallað hrunmangara hefur mjög borið á prófessorunum Þorvaldi Gylfasyni og Stefáni Ólafssyni. Ég sé ekki betur en þeim hafi nýlega bæst nokkur liðsauki. Hann er prófessor Gylfi Zoëga, sem skipulagði tveggja daga alþjóðlega ráðstefnu nú á fimmtudag og föstudag um fjármálakreppuna 2007-9 og bankahrunið á Íslandi, þar sem þeir Þorvaldur og Stefán töluðu báðir. Var ráðstefnan lokuð öðrum en sérvöldu fólki úr Háskólanum og Seðlabankanum.

Hrunmangarafélagið á það hins vegar sameiginlegt með Hörmangarafélaginu á átjándu öld, að það selur skemmda vöru. Í skrifum þeirra Þorvaldar og Stefáns á erlendri grund morar allt í villum. Til dæmis kveður Þorvaldur Framsóknarflokkinn hafa fengið þingmeirihluta 1927 og Stefán segir Íslendinga hafa losnað undan nýlenduáþján Dana 1945.

Sumt er þó beinar rangfærslur frekar en meinlausar villur. Þorvaldur segir Seðlabankann til dæmis ekki hafa beitt sér gegn gjaldeyrislánum til einstaklinga þvert á gögn, sem sýna, að bankinn varaði margsinnis og sterklega við þeim. Og Stefán kveður Rannsóknarnefnd Alþingis um bankahrunið hafa komist að þeirri niðurstöðu að seðlabankastjórarnir þrír hafi sýnt af sér alvarlega vanrækslu þótt í skýrslu nefndarinnar sé aðeins talað um vanrækslu.

Raunar má geta þess að Rannsóknarnefndin talaði (sjá 8. bindi skýrslu hennar, 21. kafla) um vanrækslu í skilningi laga nr. 142/2008, en þau voru lögin, sem samþykkt voru um nefndina eftir bankahrunið. Það hefur hingað til verið talin ein mikilvægasta regla réttarríkisins að lög séu ekki afturvirk. En þeir sem kynnu að telja á sér brotið með þessari afturvirkni eiga væntanlega engra kosta völ því að Rannsóknarnefndin lét samþykkja sérstök lög um það 2009 að hún nyti friðhelgi gegn málshöfðunum. Fleiri loka dyrum en Hrunmangarafélagið.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 1. september 2018.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband