3.3.2018 | 10:00
Þrír hugsjónamenn gegn alræði
Löngum var eitt helsta átakamál á Íslandi, hvort hér skyldi taka upp sameignarskipulag eins og í ríki Stalíns. Fjölmennur og áhrifamikill hópur barðist fyrir því með rausnarlegum stuðningi herranna í Kreml. Ólíkt því sem gerðist á öðrum Norðurlöndum var hann voldugasti hópurinn í verkalýðshreyfingunni, og hann réð líka um skeið langmestu í menningarlífinu.
Nógir urðu til að fræða Íslendinga um alræðisstefnu nasista, ekki síst eftir að þeir biðu ósigur í stríði. En þrír hugsjónamenn tóku að sér að kynna veruleikann að baki áróðri kommúnista.
Lárus Jóhannesson hæstaréttarlögmaður var alþingismaður Seyðfirðinga og átti Prentsmiðju Austurlands. Árið 1949 fékk hann málsnillinginn Jón Sigurðsson frá Kaldaðarnesi til að þýða dæmisögu Orwells um rússnesku byltinguna, Animal Farm, sem hlaut þá nafnið Félagi Napóleon, en hefur síðar verið kölluð Dýrabær. Lárus bætti um betur, því að 1951 gaf hann út eigin þýðingu á bók Víktors Kravtsjenkos, sem flúið hafði frá Ráðstjórnarríkjunum 1944, Ég kaus frelsið. Þýðingin var sannkallað þrekvirki, enda bók Kravtsjenkos 564 blaðsíður, þótt læsileg sé.
Tveir ungir vinir, lögfræðingarnir Geir Hallgrímsson og Eyjólfur Konráð Jónsson, stofnuðu bókaútgáfuna Stuðlaberg, sem gaf út þrjú öndvegisrit um kommúnismann. Árið 1950 kom út Guðinn sem brást, þar sem sex menntamenn segja frá vonbrigðum sínum með kommúnismann, þar á meðal Nóbelsverðlaunahafinn André Gide og rithöfundarnir kunnu Arthur Koestler, Ignazio Silone og Richard Wright. Er bókin með afbrigðum vel skrifuð. Árið 1951 kom út hrollvekja Orwells um alræðisskipulag, Nítján hundruð áttatíu og fjögur, sem iðulega er talin merkasta skáldsaga tuttugustu aldar. Árið 1952 kom út Bóndinn eftir Valentín González, sem verið hafði frægur herforingi í liði lýðveldissinna í spænska borgarastríðinu, en síðan setið í þrælabúðum Stalíns. Er hún fjörlega skrifuð bók um miklar mannraunir.
Þessir þrír hugsjónamenn, Lárus, Geir og Eyjólfur Konráð, eiga heiður skilinn. Í kalda stríðinu börðust þeir hinni góðu baráttu.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 3. mars 2018.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:02 | Facebook