20.1.2018 | 07:36
Svipmynd úr bankahruninu
Bankahrunið haustið 2008 stendur okkur enn ljóslifandi fyrir hugskotssjónum. Á fjölum Borgarleikhússins er sýnt leikrit, sem er að miklu leyti samið upp úr skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um það, og nýlega var rifjað upp smánarlegt umsátur um heimili stjórnmálamanna. Þótt bankastjórar Seðlabankans hefðu hvað eftir annað varað við útþenslu bankanna og í kyrrþey undirbúið þær aðgerðir, sem björguðu því, sem bjargað varð, beindist reiðin ekki síst að Seðlabankanum.
Laugardaginn 24. janúar 2009 hélt Seðlabankinn fjölsótta árshátíð á gistihúsinu Nordica. Mótmælendur fréttu af fagnaðinum og reyndu að brjóta sér leið inn í hátíðarsalinn. Dundi í hurðum við atgang þeirra, og varð mörgum innan dyra ekki um sel. Einn bankastjórinn, Davíð Oddsson, kvaddi sér þá hljóðs og sagðist þurfa að gera athugasemdir við störf árshátíðarnefndar. Hún hefði skipulagt svo skemmtilega samkomu, að greinilega kæmust færri að en vildu. Andrúmsloftið léttist nokkuð við þetta meinlausa spaug.
Brátt þyngdist andrúmsloftið þó aftur. Utan dyra fjölgaði ofbeldismönnum, og loks hafði lögreglan samband við Davíð og kvaðst ekki lengur geta tryggt öryggi hans. Aðgerðirnar væru honum til höfuðs. Fóru Davíð og kona hans þá út um bakdyr gistihússins á annarri hæð, þar sem bíll frá Seðlabankanum beið þeirra. Einhver sá til þeirra hjóna yfirgefa salinn og kom boðum til mótmælenda, sem þustu að bakdyrunum og veifuðu sumir bareflum. Bíllinn renndi af stað í þann mund er óeirðaseggina bar að, og urðu þeir að láta sér nægja að steyta ýmist hnefa eða slá með bareflum sínum út í loftið.
Þegar Davíð settist í framsætið, rakst hann á eitthvað á milli sín og bílstjórans, Garðars Halldórssonar, gamals og trausts lögreglumanns, mikillar kempu. Davíð spurði, hvað þetta væri. Jú, svaraði Garðar hinn rólegasti, þegar ég fór að heiman í kvöld, sá ég, að gömlu lögreglukylfuna mína langaði með, og ég leyfði henni það.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 16. desember 2017.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook