28.10.2017 | 10:54
Undur framfaranna
Nýlega hafa komið út á íslensku tvær merkilegar bækur um undur framfaranna, Heimur batnandi fer eftir breska líffræðinginn Matt Ridley og Framfarir eftir sænska sagnfræðinginn Johan Norberg. Þær staðreyndir, sem þeir vekja athygli á, eru óvefengjanlegar. Fæðuframboð í heiminum hefur stóraukist, en fátækt snarminnkað. Hreinlæti hefur batnað og um leið heilsufar. Dregið hefur úr ofbeldi og glæpum og stríðum fækkað. Efnistök þeirra tveggja eru þó ólík. Ridley leggur áherslu á efnalegar framfarir í krafti atvinnufrelsis, en Norberg skrifar margt um hópa, sem hafa átt undir högg að sækja, en eru nú teknir að njóta sín.
Þegar ég las bækur þeirra Ridleys og Norbergs varð mér hugsað til Íslands um aldamótin 1900. Þá var vatn sótt í brunna. Þegar vatnsveita kom loks til sögu árið 1906 dró snögglega úr taugaveiki, sem hafði smitast með óhreinu vatni. Ein óvænt hliðarafleiðing var líka, að iðgjöld brunatrygginga lækkuðu verulega: Með vatninu var oft gerlegt að ráða niðurlögum elds í húsum. Þetta er dæmi um stigmögnun framfara, þegar eitt leiðir af öðru í sjálfsprottinni þróun eða jákvæðri víxlverkun. Þá voru ekki heldur til hitaveitur eða rafmagnsveitur á Íslandi. Einhver mikilvægasta lífskjarabót Íslendinga varð á öndverðri tuttugustu öld, þegar kuldinn og myrkrið létu undan síga fyrir nýrri tækni.
Þeir Ridley og Norberg benda báðir á, að framfarir felast ekki nauðsynlega í fleiri krásum eða stærra veisluborði, heldur miklu frekar í því, að menn þurfi ekki að hafa eins mikið fyrir gæðunum og áður fyrr. Þeir spari sér tíma og orku. Enn varð mér hugsað til Íslands um 1900. Þá tók það húnvetnska skólasveina þrjá daga að komast á hestum suður í Lærða skólann í Reykjavík. Nú er sami spölur ekinn á þremur klukkutímum. Menn geta því notað tvo sólarhringa og 21 klukkustund til annars, án þess þó að þeir hafi verið sviptir tækifærinu til að fara leiðina á hestum. Ridley og Norberg sýna eftirminnilega fram á, að framfarir eru mögulegar, en ekki sjálfsagðar. »Heimurinn mun ekki farast fyrir skort á undrum, heldur aðeins fyrir skort á undrun,« sagði breski rithöfundurinn Chesterton.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 28. október 2017.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook