Bloggið sem hvarf

Hagfræðingurinn Gauti B. Eggertsson birti á bloggi sínu 8. október 2009 lista um mestu mistökin, sem gerð hefðu verið fyrir og í bankahruninu íslenska. Hann hefur nú eytt þessu bloggi, en fjölmiðlum í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar þótti það fréttnæmt eins og allt annað, sem var til þess fallið að gera lítið úr Davíð Oddssyni. Í Fréttablaðinu og á visir.is var bloggið því endursagt á þeim tíma.

Gauti skrifaði: „Stærstu mistökin eru líklega fólgin í veðlánaviðskiptum Seðlabanka Íslands sem ollu gjaldþroti hans. Í þessum viðskiptum töpuðust um 300 milljarðar, sem jafnast á við um 1 milljón á hvert mannsbarn á Íslandi, eða um 5 milljónir á hverja þriggja barna fjölskyldu. Þessi mistök lenda beint á íslenskum skattgreiðendum.“

Gauti getur þess ekki, að reglur Seðlabankans um veð voru þrengri en flestra annarra banka, til dæmis Seðlabankans bandaríska, en þar starfaði Gauti frá 2004 til 2012. Hann nefnir ekki heldur, að með Neyðarlögunum frá 6. október 2008 var kröfum Seðlabankans á bankana skipað aftur fyrir kröfur innstæðueigenda. Olli það miklu um bókfært tap hans þá. Raunar kemur fram í nýlegri bók Ásgeirs Jónssonar og Hersis Sigurgeirssonar, að líklega verður tap skattgreiðenda af bankahruninu ekkert.

Tveir dómar, hvor í sínu landi, skipta hér síðan máli, þótt þeir væru kveðnir upp, eftir að Gauti skrifaði bloggið. Vorið 2011 gerði Hæstiréttur Bandaríkjanna Seðlabankanum þar í landi eftir mikinn málarekstur að upplýsa um veðlán til banka í lánsfjárkreppunni. Sannaðist þá, eins og ég hef áður bent hér á, að bankinn hafði lánað gegn miklu lakari veðum en Seðlabankinn íslenski.

Hæstiréttur Íslands komst að þeirri niðurstöðu vorið 2016 (í máli nr. 130/2016), að ekkert hefði verið athugavert við veðlán Seðlabankans, og yrði því þrotabú eins lántakandans að endurgreiða honum skuld sína. Seðlabankinn hefði ekki brotið neinar reglur.

Skiljanlegt er því, að Gauti skyldi eyða bloggi sínu.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 9. september 2017.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband