Átakanleg saga kvenhetju

Fyrir nokkrum árum kom út á íslensku læsileg bók, Engan þarf að öfunda, eftir bandarísku blaðakonuna Barböru Demick, en þar segir frá örlögum nokkurra einstaklinga frá Norður-Kóreu.

Nú hefur Almenna bókafélagið gefið út aðra bók um Norður-Kóreu, ekki síðri, Með lífið að veði, eftir Yeonmi Park, sem er aðeins 24 ára, fædd í október 1993. Foreldrar Park voru tiltölulega vel stæð eftir því, sem gerðist í Norður-Kóreu, uns hungursneyð skall þar á um miðjan tíunda áratug og fólk varð að bjarga sér sjálft. Talið er, að mörg hundruð þúsund manns hafi þá soltið í hel. Faðir Park hóf svartamarkaðsbrask til að hafa í og á fjölskyldu sína, en var sendur í þrælabúðir. Móðir hennar var líka um skeið fangelsuð.

Þær mæðgur ákváðu vorið 2007 að flýja norður til Kína. En smyglararnir, sem fengnir voru til að koma þeim yfir landamærin, stunduðu mansal. Strax og til Kína kom, var móður Park nauðgað og síðar henni sjálfri, og báðar voru þær seldar í nauðungarhjónabönd. Maðurinn, sem tók Park að sér, lagði ást á hana, en fór misjafnlega með hana. Þær mæðgur gáfust ekki upp, og tókst þeim í febrúar 2009 að komast til Mongólíu eftir margra sólarhringa gang í fimbulkulda yfir Góbí-eyðimörkina. Þar beið þeirra óvissa, sem lauk með því, að suður-kóresk stjórnvöld fengu þær afhentar. Lýsing Park á vandanum við að verða skyndilega frjáls og þurfa að velja og hafna er ekki síður forvitnileg en á kúguninni í Norður-Kóreu og hremmingum í Kína og Mongólíu.

Park hafði ekki notið skólagöngu í mörg ár, en hún vann það upp með kappsemi samfara góðum gáfum, lærði ensku og öðlaðist sjálfstraust. Hún sló í gegn í alþjóðlegum sjónvarpsþætti haustið 2014, og á tveimur dögum horfðu 50 milljónir manna á ræðu hennar á Youtube. Bók hennar kom út á ensku haustið 2015, og stundar hún nú háskólanám í Bandaríkjunum, jafnframt því sem hún vekur ötullega athygli á mannréttindabrotum í Norður-Kóreu.

Er ekki samlíðunin uppspretta hins æðsta söngs? Samlíðunin með þeim Ástu Sóllilju og Yeonmi Park á jörðinni?

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 10. júní 2017.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband