23.7.2017 | 10:05
Íslenska blóðið ólgar
Í síðustu viku sagði ég hér frá því, að ég rakst á íslenskulegt nafn, þegar ég skoðaði lista um 100 ríkustu menn Danmerkur árið 2015. Það var dánarbú Haldors Topsøes efnaverkfræðings. Ég lagðist í grúsk og komst að því, að Haldor var afkomandi Halldórs Thorgrímsens sýslumanns og Finns Jónssonar biskups. Langamma hans var dóttir Halldórs sýslumanns, Sigríður Thorgrímsen. Nú hefur Baldur Símonarson efnafræðingur sent mér frekari fróðleik um þennan auðjöfur með íslenskt blóð í æðum.
Danska verkfræðingafélagið sæmdi Haldor Topsøe nafnbótinni verkfræðingur aldarinnar árið 1999. Fyrirtæki hans, samnefnt honum, framleiðir kísil í hálfleiðara í tölvum og símum og útbýr efnahvata (katalysatora), sem eru notaðir í áburðarframleiðslu. Fyrirtækið er enn í eigu fjölskyldunnar, og er sonur Haldors, Henrik, forstjóri. Svo einkennilega vill til, að daginn eftir að pistill minn um Haldor Topsøe birtist, var dagskrá um þennan merka frumkvöðul í danska sjónvarpinu, TV2.
Ég benti líka á það, að hinn kunni danski rithöfundur á 19. öld, Vilhelm Topsøe, ritstjóri Dagbladet og skáldsagnahöfundur, brautryðjandi í raunsæisbókmenntum, var afabróðir auðjöfursins. En annar afkomandi Halldórs Thorgrímsens og Finns Jónssonar er líka danskur rithöfundur, Vilhelm Topsøe yngri, sem hefur gefið út nokkrar skáldsögur. Baldur Símonarson rifjar upp, að hann er kvæntur söngkonunni Elisabeth Meyer-Topsøe, sem hefur nokkrum sinnum haldið tónleika á Íslandi og einnig kennt ýmsum Íslendingum söng. Er hún aðallega kunn fyrir hlutverk sín í söngleikjum Wagners.
Í Morgunblaðinu birtist 10. september 1995 viðtal við þau hjón, skömmu áður en Elisabeth hélt hér fyrst tónleika. Maður hennar kvaðst þá vera enn áhugasamari en hún um Ísland. Langamma hans var íslensk, og hann segir afkomendurna vera ákaflega stolta af íslensku ætterni sínu, auk þess sem þeir noti það til að skýra skaphita sinn. Þegar þeim renni í skap, álíti þeir, að íslenska blóðið í þeim ólgi.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 1. júlí 2017.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook