29.2.2016 | 20:11
Það sem ég reiknaði út 2015
Á dögunum skilaði ég Rannsóknarskýrslu fyrir 2015 til Háskólans, eins og okkur háskólakennurum ber að gera. Þá rifjaðist margt upp fyrir mér, sem ég hafði gert á síðasta ári. Meðal annars lagðist ég í útreikninga á ýmsu:
Hvað var Rússagullið mikið? Samkvæmt útreikningum mínum, þegar fjárhæðirnar, sem vitað er um, hafa verið skattvirtar (þær voru leynilegar og því skattfrjálsar) og núvirtar, var það um hálfur milljarður króna, aðallega árin 19551970.
Hvert rann Rússagullið? Samkvæmt útreikningum mínum nemur heildarvirði þeirra fasteigna, sem Sósíalistaflokkurinn lét eftir sig, um 1,2 milljörðum króna að núvirði (Skólavörðustígur 19, Þingholtsstræti 27, Laugavegur 18 og Tjarnargata 20). Félagar í flokknum voru um 1.400 á sjötta áratug.
Hvað reyndi Danakóngur að selja Ísland fyrir mikið fé? Samkvæmt útreikningum mínum reyndi hann 1518 að selja það Hinrik VIII. Englandskóngi fyrir 50 þúsund flórínur eða 6,5 milljónir dala eða um 800 milljónir íslenskra króna. Hann reyndi að selja það Hamborgarkaupmönnum fyrir 500 þúsund silfurdali 1645 eða 6,4 milljónir dala, nánast sömu upphæð og röskri öld áður. Árið 1868 veltu Bandaríkjamenn fyrir sér að kaupa Ísland. Hefðu þeir greitt sömu upphæð á hvern ferkílómetra og fyrir Alaska, þá hefði kaupverðið verið 8,7 milljónir dala, nokkru hærra, en þó ekki mjög, og árin 1518 og 1645.
Hvað kostuðu handvömm Más seðlabankastjóra Guðmundssonar, þegar hann seldi FIH banka, og fólska breskra ráðamanna, þegar þeir lokuðu KSF og Heritable Bank? Samkvæmt útreikningum mínum nemur tapið af þessu þrennu samtals eitthvað um 200 milljörðum króna.
Ég er ekki óskeikull, og hugsanlega hef ég misreiknað eitthvað. Ég fékk eina skarplega athugasemd við útreikninga mína (frá Herði Guðmundssyni) og leiðrétti að bragði það, sem hann benti mér á. En ég hef ekki fengið neinar aðrar athugasemdir.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook