Lánsfé og lystisnekkjur

snekkja_jaj_utan.jpgEitt sinn sagði bandaríski rithöfundurinn F. Scott Fitzgerald við landa sinn og starfsbróður, Ernest Hemingway: „Ríkt fólk er ólíkt mér og þér.“ Hemingway svaraði þurrlega: „Já, það á meira fé.“ Hefði Hemingway verið staddur á Íslandi árin 2004-2008, eftir að klíkukapítalismi tók við af markaðskapítalisma áranna 1991-2004, þá hefði hann getað orðað þetta öðru vísi: „Já, það getur fengið meira fé að láni.“

Mér datt þetta í hug, þegar ég rakst á grein í mánaðarritinu Boat International frá árinu 2008. Louisa Beckett skrifaði hana, en Mark Lloyd tók ljósmyndir. Hún var um lystisnekkju af gerðinni Heesen 4400 sem þau Jón Ásgeir Jóhannesson og Ingibjörg Pálmadóttir höfðu fengið afhenta í nóvember 2007. Bar hin 45 m langa snekkja heitið 101. Því er lýst hvernig snekkjan var löguð að þörfum og smekk eigendanna. Einnig kemur fram í greininni að þau hjón eigi einkaþotu með sama nafni og séu að reisa skíðaskála með sama nafni í frönsku Ölpunum.

Þau Jón Ásgeir og Ingibjörg höfðu áður átt 29 m langa snekkju af gerðinni Ferretti, en hún nægði þeim ekki svo að þau sendu skipstjóra sinn í leit að heppilegum farkosti á höfunum. Hollenska fyrirtækið Heesen varð fyrir valinu og hófst smíði snekkjunnar í ágúst 2005. Ingibjörg vann með Perry van Hirtum, aðalhönnuði Heesen, og flaug hann oft til Lundúna næstu tvö árin til að ráðgast við hana. Aðallitirnir á gripnum voru svart, hvítt, silfurgrátt og blágrátt. „Ég held að ég hafi orðið fyrir áhrifum af andrúmsloftinu á Íslandi, af íslenskri náttúru,“ sagði Ingibjörg við tímaritið.

Snekkjan var þó ekki skráð á Íslandi, heldur á Cayman-eyjum, og lánaði Kaupþing í Lúxemborg fyrir henni gegn veði í henni. Árið 2009 leysti þrotabú Kaupþings síðan snekkjuna til sín og seldi, en söluverðið nægði ekki fyrir öllu láninu. Samkvæmt upplýsingum frá Jóni Ásgeiri, sem birtust á visir.is 5. janúar 2008, kostaði snekkjan „nær milljarði en tveimur“. Eitthvað er þar málum blandið því að þá var söluverð slíkrar snekkju á alþjóðlegum markaði nálægt 35 milljónum dala, en tveir milljarðar króna voru þá 32 milljónir dala. Sama snekkja, sem nefnist nú „Bliss“, er til sölu fyrir um 25 milljónir dala eða röska þrjá milljarða króna.

Ríkt fólk er ólíkt mér og þér: Það getur fengið meira fé að láni.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 3. janúar 2015. Myndin eru af lystisnekkjunni, sem keypt var fyrir lánsfé.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband