Kaupstaðarferð

SteinnSteinarrSteinn Steinarr sagði í miðnætursamtali við Matthías Johannessen vorið 1957: „Ég er uppalinn í sveit, eins og þú kannski veist, og þegar ég var lítill drengur, var ég stundum sendur í kaupstaðinn, eins og það var kallað. Í raun og veru finnst mér ég enn vera í einhverri slíkri kaupstaðarferð, langri og yfirnáttúrlegri kaupstaðarferð, en ég hef gleymt því hver sendi mig, og einnig því, hvað ég átti að kaupa.“

Í Málsvörn og minningum bendir Matthías á, að í Brekkukotsannál (sem kom líka út 1957) leggur Halldór Laxness Garðari Hólm í munn þessi orð: „Hún móðir mín sendi mig einu sinni út að kaupa pipar og ég er ekki kominn heim enn.“ Í netdagbók sinni bætir Þórarinn Eldjárn nú við, að í ljóðinu „Mannsbarn“ eftir sænska skáldið Nils Ferlin getur að líta svipaða hugmynd:

Þú misstir á leiðinni miðann þinn,
þú mannsbarn, sem einhver sendi.
Á kaupmannsins tröppum með tárvota kinn
þú titrar með skilding í hendi.


Ljóð Ferlins kom út í íslenskri þýðingu Magnúsar Ásgeirssonar 1944.

Annað dæmi um erlend áhrif á Stein er alþekkt. Bandaríska skáldið Carl Sandburg á talsvert í kvæðinu um grasið, sem grær að lokum yfir okkur. Vísa Leifs Haraldssonar frá Háeyri af því tilefni varð fleyg:

Um hirðusemi er hneyksli næst að fjasa,
sú höfuðdygð af Guði er mönnum veitt,
hjá Carli Sandburg kennir margra grasa,
menn komast varla hjá að taka eitt.

Steinn yrti eftir þetta ekki á Leif. Hann setti líka saman kviðlinginn um kvenmannsleysi í kuldatrekki til háðungar Leifi, sem stamaði.

Sjálfur hef ég bent á þriðja dæmið um erlend áhrif á Stein. Það er í ljóðinu „Hamingjan og ég“, þar sem skáldið kveðst fara á mis við hamingjuna, af því að hún talar sunnlensku og það vestfirsku. Þegar það lærir loks sunnlensku, hefur hún breytt framburði sínum. Í kvæðinu „Frokosten“ (Árbítur) yrkir Johannes V. Jensen:

Lykken og jeg forstod ikke hinanden;
jeg talte altid en Dialekt, hvor jeg saa var.


Þetta ljóð Jensens kom fyrst út á bók 1906.

Matthías Johannessen segir í bók sinni, að þeir Steinn Steinarr og Garðar Hólm hafi átt erindi, því að þeir hafi verið sendisveinar íslenskrar menningar. Ég orða þetta öðru vísi. Garðar átti ekkert erindi, því að hann náði ekki hinum hreina tón og var um of háður fólkinu í Gúðmúnsenbúð. Þess vegna kom ekki á óvart, að hann stytti sér aldur. Steinn gerði sér hins vegar upp tómhyggju. Þótt hann segði margt snjallt um tilgangsleysi lífsins, hafði hann undir niðri sterka sannfæringu um tilgang þess, eins og allir, sem fjölyrða um tilgangsleysi. Steinn grunaði erindið í kaupstaðinn: Grasið grær að vísu yfir okkur, en góð verk geymast í hjörtum eftirlifenda. Hamingjan talar ekkert eitt mál, heldur fer gengi manna á frjálsum markaði eftir því, hversu vel þeim tekst að fullnægja þörfum annarra.

Lífið er ferð í kaupstað, og við eigum þangað erindi. Bjartur Laxness og Halla Jóns Trausta fóru að vísu bæði í öfuga átt, upp á heiðar. Þau áttu að halda niður í kaupstaðinn, og það gerði Halla að lokum ólíkt Bjarti, sem þrjóskaðist við. Saga mannfólksins síðustu aldir hefur verið um kaupstaðarferð, fjölgun tækifæra fyrir tilstilli kapítalismans. Menn hafa vissulega ekki alltaf kunnað málið, þegar þeir komu í kaupstaðinn, en þeir lærðu það langflestir, eins og reynsla Bandaríkjamanna síðustu tvö hundruð ár sýnir. Annað dæmi er Reykjavík. Alla tuttugustu öld streymdi hingað allslaust fólk, sem tókst að brjótast í bjargálnir.

Til voru þeir menn á síðustu öld, sem vildu koma í veg fyrir kaupstaðarferðina og reka alla inn í samyrkjubú eða ríkisverksmiðjur. Steinn var vissulega sósíalisti ungur. En undir lokin orti hann gegn fyrri trú: „Með hálfum sannleika berst ég gegn algerri lygi.“ Þessa hugmynd tók hann bersýnilega frá hinum kunna andkommúnista Arthur Koestler, sem skrifaði í The Yogi and the Commissar 1945: „We are fighting against a total lie in the name of a half truth.“ Þeir Steinn og Koestler vildu báðir leyfa okkur að komast leiðar okkar.

Fréttablaðið 14. maí 2007.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband