Frænka Jörundar hundadagakonungs

10975_10152607877857420_2316408031601389334_n.jpgÁ þingi alþjóðlegs málfundafélags frjálslyndra fræðimanna, Mont Pèlerin samtakanna, í Hong Kong haustið 2014 var lokahófið föstudaginn 5. september á eyju nálægt borginni, Lamma, og sigldum við þangað. Mér var þar skipað til borðs hjá höfðinglegri, hvíthærðri konu, og við tókum tal saman. Hún var frá Sviss og heitir Annette Wagnière, fædd Perrenoud. Þegar hún heyrði, að ég væri frá Íslandi, sagði hún mér, að frændi sinn hefði rænt þar völdum árið 1809, Jørgen Jørgensen, sem við Íslendingar nefnum oftast Jörund hundadagakonung. Viðurnefni Jörundar stafar af því, að stjórnartími hans 25. júní til 22. ágúst 1809 fór að mestu leyti saman við hundadaga, 13. júlí til 23. ágúst, en hundadagar draga nafn sitt af hundastjörnunni, Canicula eða Síríus, björtustu stjörnu stjörnumerkisins Stórahunds.

Jörundur fæddist í Kaupmannahöfn 29. mars 1780, sonur konunglegs úrsmiðs, sem einnig hét Jørgen Jørgensen, og konu hans, Anna Lethe Bruun. Íslendingar þekkja ævintýri hans, meðal annars af bókum Jóns Þorkelssonar þjóðskjalavarðar og Helga P. Briems sendiherra og ritgerðum Önnu Agnarsdóttur prófessors. Eftir umhleypingasama ævi bar Jörundur beinin hinum megin á hnettinum, á eyjunni Tasmaníu 20. janúar 1841. Var hann þá kvæntur, en barnlaus.

Sessunautur minn í lokahófinu er komin af eldri bróður Jörundar, Urban Jørgensen. Hann fæddist 5. ágúst 1776 í Kaupmannahöfn og lést þar 14. maí 1830. Faðir hans sendi hann tvítugan að aldri í námsferð til Sviss. Þar kynntist hann kunnum úrsmið, Jacques-Fréderic Houriet, kvæntist dóttur hans, Sophie-Henriette, og eignuðust þau hjón tvo syni. Annar þeirra, Jules Frederik, ílentist í Sviss. Hann fæddist 27. júlí 1808, varð vellauðugur og smíðaði mjög dýr og vegleg úr, sem úrasafnarar sækjast enn eftir. Hann var góður vinur ævintýraskáldsins H. C. Andersens, sem heimsótti hann oft á herragarð hans í Sviss, Le Châtelard í Les Brenets. Jules reisti útsýnisturn við frönsku landamærin, nálægt húsi sínu í Les Brenets, og er hann kenndur við hann, Jürgensen-turninn.

Jules Jürgensen lést 17. desember 1877. Ein dóttir hans, Sophie (1840–1917), giftist úrsmiðnum Auguste Perrenoud, og getur H. C. Andersen þeirra hjóna í dagbókum sínum. Sonur þeirra var Georges Henri Perrenoud (1867–1927), sem hefur líklega haft sömu ævintýralöngun í blóðinu og frændi hans Jörundur, því að hann fluttist til Síle. Sonur hans var Claude Alphonse Maurice Perrenoud (1910–2003), sem sneri aftur til Sviss, og er Annette dóttir hans. Urban Jörundarbróðir var því langalangalangafi hennar. Hún fæddist 26. september 1941 og giftist 1962 svissneskum iðnrekanda, Daniel Wagnière, og sat hann með okkur við borðið, virðulegur öldungur með gleraugu. Eiga þau hjón fjögur börn. Þótt langt sé um liðið, varðveitir hinn svissneski leggur Jørgensen-ættarinnar minninguna um ævintýramanninn á Íslandi, bróður Urbans, ættföður þeirra.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 22. nóvember 2014.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband