3.4.2007 | 21:19
Saga móður
Í marsbyrjun á þessu ári birtist í Morgunblaðinu átakanleg frásögn roskinnar konu, Ásu Hjálmarsdóttur, sem hafði verið fátæk, einstæð móðir í Hafnarfirði á sjöunda áratug síðustu aldar og alið þar upp fimm börn. Margrét Björnsdóttir, forstöðumaður Stofnunar stjórnmála og stjórnsýslu í Háskóla Íslands og aðalskipuleggjandi kosningabaráttu Samfylkingarinnar, reyndi óðar að notfæra sér sögu Ásu í áróðri sínum. Í aðsendri grein í Morgunblaðinu 12. mars kvað hún þetta einmitt áminningu um, að ójöfnuður hefði aukist á Íslandi í valdatíð núverandi ríkisstjórnar, eins og Stefán Ólafsson prófessor hefði sýnt. Margrét benti einnig á nýlegar fullyrðingar annars samstarfsmanns síns, Helga Gunnlaugssonar prófessors, um náin tengsl ójafnaðar og afbrota.
Það var erfitt að vera fátækur í Hafnarfirði á sjöunda áratug síðustu aldar. En jöfnuður hefur þar aukist í þeim skilningi, að atvinnutækifærum hefur fjölgað. Ein meginástæðan er álverið, sem reis í lok þess áratugar. Fjöldi Hafnfirðinga fékk vel launaða vinnu í álverinu eða við þjónustu, sem því er tengd. Margrét Björnsdóttir og félagar hennar, þeir Stefán og Helgi, neita að skilja, að forsenda góðra lífskjara er öflugt atvinnulíf. Þá dugir ekki að stöðva allt, eins og vinstri grænir krefjast, eða fresta öllu, eins og Samfylkingin vill. Eitthvað verður að vera til skiptanna. Við lifum ekki lengi á fjallagrösum og munnvatni. Raunar hefur margoft komið fram í alþjóðlegum skýrslum, að á Íslandi eru almenn lífskjör einhver hin bestu í heimi og fátækt óveruleg, þótt tekjuskipting sé tiltölulega jöfn.
Frásögn Ásu Hjálmarsdóttur varð mér umhugsunarefni. Hver skyldu kjör íslenskrar konu í hennar sporum vera fjörutíu árum síðar, 2007? Ég skoðaði upplýsingar um það á heimasíðum ríkisskattstjóra og Tryggingastofnunar. Setjum svo, að konan hafi 130 þúsund kr. í mánaðarlaun. Hún nýtur líka mæðralauna að upphæð 13.846 kr. á mánuði og barnalífeyris (eða sömu upphæðar í meðlag, ef barnsfaðir hennar er á lífi) með fimm börnum, 18.284 kr. með hverju, samtals 91.420 kr. á mánuði. Setjum einnig svo, að tvö barnanna séu yngri en sjö ára. Hún fær samkvæmt því barnabætur að upphæð 104.192 kr. á mánuði. Hún greiðir aðeins skatt af atvinnutekjum sínum og mæðralaunum. Ef gert er ráð fyrir fullum lífeyrissparnaði (sem hún nýtur góðs af síðar meir) og framlagi í stéttarfélag, þá eru ráðstöfunartekjur hennar eftir skatt 327.024 kr. á mánuði. (Til að hafa sömu ráðstöfunartekjur eftir skatt þyrfti einhleyp og barnlaus kona að hafa um 480 þúsund kr. í mánaðarlaun.)
327 þúsund króna mánaðartekjur eru ekki mikið handa fimm barna fjölskyldu, en það er meira en í grannlöndum okkar. Væru Ása og börn hennar fimm að heyja lífsbaráttu sína nú, þá væri annar mikilvægur munur á aðstæðum þeirra hér og á Norðurlöndum. Þau börnin, sem væru orðin stálpuð, ættu auðvelt með að fá hér vinnu, til dæmis í Bónus eða við blaðaútburð, og legðu til heimilisins. Í Svíþjóð og víðar á Norðurlöndum er hins vegar mikið atvinnuleysi og aðallega í röðum ungs fólks. Þar stendur mönnum vissulega til boða að komast á bætur, en ekki að vinna sig úr fátækt í bjargálnir. Það er í þessum skilningi, sem ég held því fram, að jöfnuður hafi þrátt fyrir svartagallsraus Stefáns Ólafssonar aukist á Íslandi: Tækifærum hefur fjölgað, leiðir opnast.
Fullyrðing Margrétar Björnsdóttur um, að aukinn ójöfnuður leiddi til fleiri afbrota, varð mér líka umhugsunarefni. Ég skoðaði tölur um afbrot á heimasíðu hagstofunnar. Þau eru hér fátíðari en víðast annars staðar. Ein besta mælingin á fjölda afbrota er, hversu margir eru sakfelldir fyrir brot á almennum hegningarlögum á hverja þúsund íbúa á aldrinum 16-69 ára. Þetta hlutfall hefur lækkað talsvert síðustu sextán árin, úr 4,8 árið 1991 niður í 3,5 árið 2005. Annar mælikvarði er fjöldi skráðra líkamsmeiðinga á hverja þúsund íbúa. Þetta hlutfall hefur farið úr 5,0 árið 1999 niður í 4,4 árið 2005. Fullyrðingar Margrétar og félaga hennar, þeirra Stefáns og Helga, um ójöfnuð og afbrot á Íslandi eru greinilega marklausar.
Fréttablaðið 22. mars 2007.