3.4.2007 | 02:34
Vistvæn stóriðja
Þegar ferðamenn sigldu inn á Reykjavíkurhöfn fyrir seinna stríð, sáu þeir þykkan kolamökk liggja yfir borginni. Þetta breyttist, eftir að bæjarbúar tóku að dæla heitu vatni úr iðrum jarðar, leiða það í pípur um hús sín og hita þau þannig upp. Loftið yfir borginni varð skyndilega hreint. Íslendingar eru líka svo heppnir, að hér má vinna raforku með vatnsafli, svo að ekki þarf að brenna olíu eða kolum í því skyni. Það er við slíka brennslu annars staðar, sem koltvísýringur er losaður út í andrúmsloftið, en margir hafa af því áhyggjur, því að þeir telja með réttu eða röngu, að við það hlýni jörðin óhóflega.
Það skýtur skökku við, ef náttúruverndarsinnar ólmast gegn vatnsaflsvirkjunum. Þær eru mengunarlausar ólíkt flestum öðrum orkugjöfum. Með þeim er líka notuð endurnýjanleg auðlind, en ekki gengið á snefilefni. Eini annmarkinn, sem kann að vera á slíkum virkjunum frá sjónarmiði náttúruverndarsinna, er, að talsvert land fer sums staðar undir vatn. En við höfum nóg af landi ólíkt orku. Það er meiri prýði að vötnum en grjóti. Raunar má nefna, að Elliðavatn er að mestu leyti uppistöðulón, og Þingvallavatn og Mývatn mynduðust bæði, þegar eldgos stífluðu ár.
Raforkan íslenska er að mestu leyti seld til ál- og járnblendiframleiðslu. Náttúruverndarsinnar ættu að fagna aukinni álframleiðslu af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi er þessi málmur léttur, svo að flugvélar og önnur farartæki þurfa því minna eldsneyti sem stærri hluti þeirra er úr áli. Í þeim skilningi er ál vistvænt. Jakob Björnsson, fyrrverandi orkumálastjóri, telur, að álið, sem framleitt er á Íslandi, hafi árið 2004 sparað losun á 1.628 þúsund tonnum af koltvísýringi og ígildi þess út í andrúmsloftið. Þar eð áliðnaður á Íslandi losaði sjálfur það ár 446 þúsund tonn út í andrúmsloftið, nam hreinn ávinningur af íslenskum álbræðslum frá þessu sjónarmiði séð 1.182 þúsund tonnum.
Í öðru lagi breytum við Íslendingar engu um eftirspurn eftir áli. Ef það er ekki unnið með rafmagni úr íslenskum vatns- eða gufuaflsvirkjunum, þá er það framleitt erlendis með brennslu á eldsneyti, sem hefur í för með sér stórkostlega losun koltvísýrings út í andrúmsloftið. Talið er, að með því að framleiða álið hér sparist 3.474 þúsund tonn af koltvísýringi, sem ella hefði verið losað út í andrúmsloftið annars staðar í heiminum.
Við erum vitaskuld öll hlynnt náttúruvernd í þeim skilningi, að við viljum tryggja, að virkjanir óprýði ekki umhverfið og verksmiðjur óhreinki það sem minnst. Við viljum hreint loft og tært vatn. Það fáum við ekki með því að stöðva alla framþróun og hætta nýtingu náttúrunnar, eins og sumir krefjast, heldur með því að gera einkaaðila ábyrga fyrir slíkri nýtingu, svo að hún verði skynsamleg. Það tekst best með myndun einkaeignarréttar á einstökum náttúrugæðum, því að þá verðleggja menn þessi gæði. Þá taka þeir náttúruna með í reikninginn. Þetta er kjarninn í grænni frjálshyggju.
Náttúran er eins og auðurinn góður þjónn, en vondur húsbóndi. Öfgafulla náttúruverndarsinna ætti ef til vill frekar að kalla náttúrusinna, því að þeir hafna því boðorði fyrstu Mósebókar, að mennirnir eigi að gera náttúruna sér undirgefna, nýta sér fiska loftsins, fugla sjávarins og önnur gæði, þar á meðal auðvitað jarðvarma og vatnsafl.
Stórvirkjanir stuðla ekki aðeins að náttúruvernd, heldur líka festu í atvinnumálum. Enginn fer með þær, en fjármagn má flytja milli landa með einu pennastriki. Einu frambærilegu rökin gegn því að virkja Neðri-Þjórsá og selja raforkuna til tveggja eða þriggja álvera eru, að það borgi sig ekki. Andstæðingar slíkrar virkjunar verða að sýna, að unnt sé að ávaxta það fé, sem lagt sé í hana, á annan og hagkvæmari hátt. Það þarf að skoða vandlega og fordómalaust. Hitt veit ég, að ákvarðanir um þetta verða ekki skynsamlegar, á meðan stjórnmálamenn ráða ferðinni og Landsvirkjun er ríkisfyrirtæki, hversu góðir sem stjórnendur þess eru. Ekki verður of oft á það minnt, að menn fara betur með eigið fé en annarra og að það, sem allir eiga, hirðir enginn um.
Fréttablaðið 16. mars 2007.