2.4.2007 | 23:10
Sænsku leiðina?
Kosningar nálgast, og kosningaskjálfti er hlaupinn í Stefán Ólafsson prófessor. Hann hefur í ótal viðtölum látið í ljós þá skoðun, að Íslendingar séu á rangri leið. Þeir fari bandarísku leiðina og minnki velferðaraðstoð, en ættu þess í stað að fara sænsku leiðina og auka slíka aðstoð. Margt sé athugavert við bandarísku leiðina. Banadaríkjamenn vinni of mikið, og þar sé tekjuskipting ekki nógu jöfn. Hinir verst settu séu betur settir í Svíþjóð.
Skoðun Stefáns er því miður sett fram þrjátíu árum of seint. Sænska leiðin þótti fullfær fram á sjöunda áratug síðustu aldar. Svíar höfðu árin 1870-1950 búið við mesta hagvöxt í heimi. Jafnaðarmenn tóku völdin 1932 og héldu þeim samfleytt til 1976. Þeir gættu þess að hrófla ekki við öflugum einkafyrirtækjum, sem kepptu á alþjóðamarkaði, heldur einbeittu sér að því að dreifa hinum miklu skatttekjum, sem einstaklingar og atvinnulíf gátu borið. Sænska velferðarríkið var öfundarefni um heim allan. Svo virtist sem sameina mætti vaxandi atvinnulíf og víðtæka velferðarþjónustu. Þjóðin var samstæð og vinnufriður góður.
Smám saman komu brestir í þetta kerfi, aðallega upp úr 1970. Sænskt atvinnulíf hætti að vaxa. Það dróst aftur úr hinu bandaríska. Árið 1964 voru lífskjör í Svíþjóð, eins og þau mælast í vergri landsframleiðslu á mann, 89% af því, sem þau voru í Bandaríkjunum. Árið 2004 eru þau komin niður í 75%. Svíar njóta að jafnaði aðeins ¾ þeirra lífskjara, sem Bandaríkjamenn njóta. Sænska þjóðin var hin ríkasta á Norðurlöndum fyrir þrjátíu árum. Nú er hún hin fimmta og síðasta í röðinni.
Atvinnulíf í Svíþjóð er staðnað. Þar hafa nánast öll ný störf frá 1950 orðið til í opingera geiranum. Sérstaklega hefur smáfyrirtækjum verið gert erfitt fyrir með margvíslegri skriffinnsku. Atvinnuleysi er verulegt í Svíþjóð, 15-17%, þótt reynt sé að fela það með námskeiðshaldi og öðru slíku. Skattheimta er komin upp úr öllu hófi. Skatttekjur ríkisins á mann í Svíþjóð eru svipaðar og í Sviss, um eitt þúsund Bandaríkjadalir, en skattheimtan er um 60% af VLF í Svíþjóð og um 30% í Sviss. Svíar eru bersýnilega að ganga á skattstofna sína með ofsköttun, eins og við gengum forðum á fiskistofna okkar með ofveiði.
Fróðlegt er að bera saman fátækt í Bandaríkjunum og Svíþjóð. Bandaríkjamenn reyna að fjölga tækifærum fólks til að komast út úr fátækt, en Svíar að gera fátæktina sem bærilegasta. Afleiðingarnar blasa við. Árið 1959 voru 22% bandarískra heimila innan fátæktarmarka, eins og þau voru þá skilgreind. Árið 2004 voru 12% bandarískra heimila hins vegar innan fátæktarmarka, eins og þau voru þá skilgreind. Það ár voru 25% bandarískra heimila með innan við 25 þúsund dala árstekjur, en um 40 % sænskra heimila. Í stórfróðlegri bók eftir sænsku hagfræðingana Fredrik Bergström og Robert Gidehag, EU versus USA, er sýnt, að almenn lífskjör eru talsvert betri í Bandaríkjunum en löndum Evrópusambandsins. Væri Svíþjóð eitt Bandaríkjanna, þá væri það í röð fátækustu ríkjanna, ásamt Arkansas og Mississippi.
Svíum er vandi sinn ljós, og þeir hafa skipað fjölda spakvitringa í nefndir til að leggja á ráðin um úrbætur. Var Þorvaldur Gylfason prófessor í einni þeirri, og tillögur hans voru að lækka skatta, auka atvinnufrelsi, mynda sveigjanlegri vinnumarkað og gæta hófs í velferðaraðstoð. Hann talar ekki þar úti eins og á Íslandi. En Svíar eiga úr vöndu að ráða, því að meiri hluti kjósenda er ýmist í starfi hjá hinu opinbera eða styrkþegar þess, en þessir hópar vilja auðvitað ekki minnka umsvif ríkisins. Svíar eru því í sjálfheldu sérhagsmunanna.
Íslendingar hafa farið íslensku leiðina, hvorki hina bandarísku né hina sænsku. Íslendingum finnast Bandaríkjamenn of tómlátir um þá, sem lítils mega sín, en Svíar of rausnarlegir við þá, sem geta unnið, en vilja það ekki. Við höfum aukið atvinnufrelsi stórlega síðustu fimmtán árin. Afleiðingin hefur orðið sú, sem Adam Smith sagði fyrir um, að atvinnulífið hefur eflst og skatttekjur aukist. Íslenska leiðin er meðalvegur milli hinnar bandarísku og hinnar sænsku. Þar er meiru skipt en í Bandaríkjunum og meira til skiptanna en í Svíþjóð, af því að meira er skapað.
Fréttablaðið 19. janúar 2007.