31.3.2007 | 11:35
Baráttumál frjálshyggjumanna: Náttúruvernd
Síðustu árin hafa vinstri menn leikið algengan leik í stjórnmáladeilum. Þeir hafa tekið falleg orð og gert að sínum. Tvö þessara orða eru jöfnuður og náttúruvernd. Ég hef enn ekki hitt neinn þann, sem er hlynntur ójöfnuði og náttúruspjöllum. Menn skiptast miklu frekar eftir því, hvernig þeir skilja þessi fallegu orð og hvaða leiðir þeir sjá greiðfærastar að þeim markmiðum, sem þau fela í sér. Ættu frjálshyggjumenn ekki að nota hugtökin tvö án hiks? Hvers vegna þyrftu þeir að láta vinstri mönnum þau eftir? Guðbrandur biskup Þorláksson benti á það í formála sálmabókar sinnar 1589, að það ynni sannleikanum (sem hann hugði vera) ekkert mein að taka snjallar tungur og mjúkmálar í þjónustu hans. Í sama anda kvaðst klerkurinn Rowland Hill á átjándu öld ekki sjá neina ástæðu til þess, að djöfullinn einokaði öll skemmtilegustu lögin. Það, sem sannara reynist, getur líka verið það, sem betur hljómar. Og vissulega hljóma orðin jöfnuður og náttúruvernd vel. Í síðustu viku skýrði ég út, hvers vegna frjálshyggjumenn geta með góðri samvisku barist fyrir jöfnuði, en nú sný ég mér að náttúruvernd.
Náttúruvernd, sósíalismi og hrakspár
Á fyrri hluta 20. aldar spáðu margir kapítalismanum falli vegna einokunartilhneigingar, sem í honum fælist. Gallinn við samkeppnina er, að einhver vinnur hana, sagði George Orwell um bók Friðriks Ágústs von Hayeks, Leiðina til ánauðar. Orwell átti við, að fyrirtækin yrðu stærri og færri, uns eitt væri eftir í hverri grein, og þá hlyti ríkið að taka við. Þessi spá rættist ekki. Tækniþróunin hefur frekar auðveldað samkeppni en hitt: Litlar einingar eru ósjaldan hagkvæmari en stórar. Með hnattvæðingunni eftir hrun sósíalismans hefur samkeppni líka harðnað, því að markaðir hafa opnast og runnið saman: Þýskar bílasmiðjur eiga keppinauta í mörgum öðrum löndum. En nú spá margir kapítalismanum falli vegna þess, að hann valdi óbætanlegum náttúruspjöllum, til dæmis Vésteinn Lúðvíksson rithöfundur í greinum hér í Lesbókinni. Aukinn áhugi á náttúruvernd er vissulega eðlilegur. Nútímamenn ferðast meira og hafa fleiri tómstundir en áar þeirra. Þeir eru næmir fyrir náttúrufegurð og láta sér ekki nægja að segja, að á Vestfjörðum sé fagurt, þegar fiskast. Þeir vilja hreint loft og tært vatn. Þeir kunna að meta sjaldgæfar dýrategundir og ósnortið umhverfi. En um náttúruvernd má segja hið sama og jöfnuð, að þeir, sem hæst hafa, leggja minnst til mála. Hvergi voru stunduð eins víðtæk náttúruspjöll og í sósíalistaríkjunum sálugu. Þar voru fiskimið þurrausin, úrgangi veitt í vötn, eiturgufum spúð í andrúmsloftið. Skýringin var einföld. Allt var í sameign, en það, sem allir eiga, hirðir enginn um.
Ýmsar hrakspár um náttúruspjöll annars staðar í heiminum hafa hins vegar ekki gengið eftir. Bandaríski líffræðingurinn Rachel Carson gaf 1962 út bókina Raddir vorsins þagna um það, að fuglalífi stafaði stórkostleg hætta af skordýraeitrinu D. D. T., en því var beitt með góðum árangri í baráttu við mýrarköldu (malaríu). Efnið var því víða bannað. Hefur bók Carsons verið talin kveikjan að náttúruverndarhreyfingu okkar daga. Í ljós hefur komið, að hættan af D. D. T. var mjög orðum aukin. En margar milljónir manna í fátækum löndum hafa dáið úr mýrarköldu, af því að þetta ódýra og handhæga efni var bannað. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, W. H. O., hefur þess vegna lagt til, að efnið verði aftur tekið í notkun. Annað dæmi er skýrsla, sem áhugamenn settu saman undir nafninu Endimörk vaxtarins 1972. Þar var varað við því, að fólki fjölgaði og neysla þess ykist hraðar en náttúran þyldi. Ýmis hráefni gengju brátt til þurrðar, ef mannkyn gerbreytti ekki lífsháttum. Margir vísindamenn gagnrýndu skýrsluna harðlega þegar í byrjun, þar eð ekki væri gert ráð fyrir því, að tækniþróun gæti orðið jafnhröð og fólksfjölgun eða neysluaukning, auk þess sem horft væri fram hjá því, að verðbreytingar á markaði gætu haft áhrif: Minna framboð á einhverju efni leiddi til hærra verðs, sem síðan hefði í för með sér minni eftirspurn eftir efninu og einbeittari leit að einhverju öðru í þess stað. Hvað sem því líður, hafa hrakspár í skýrslunni ekki ræst. Til dæmis hefur verð á 34 algengustu tegundum hrávöru lækkað frá 1980, ef tóbak er undanskilið. Í skýrslunni sagði einnig, að gull yrði þrotið árið 1979, jarðolía 1990, kopar 1991 og ál 2001. Nóg er nú til af öllum þessum efnum.
Ekki hefur reynst vandkvæðum bundið að brauðfæða nýja íbúa jarðarkringlunnar. Með grænu byltingunni á sjöunda áratug 20. aldar stórjókst matvælaframleiðsla. Hungur á okkar dögum má langoftast rekja til ófriðar eða slæms stjórnarfars, ekki náttúruspjalla. Fleiri lifa nú en áður, og þeir lifa betra lífi: Meðalaldur í heiminum hefur tvöfaldast síðustu eitt hundrað ár, og dregið hefur úr barnadauða og smit- og hörgulsjúkdómum. Aðrar hrakspár hafa ekki heldur gengið eftir. Fullyrt var fram í lok 20. aldar, að skógar væru að eyðast vegna súrs regns og af öðrum ástæðum. Jörðin gæti vart andað. Þetta reyndist rangt. Skógar þekja jafnmikil svæði og fyrir hálfri öld. Raunar eiga þeir miklu minni þátt í nauðsynlegri súrefnismyndun í andrúmsloftinu en aðrar plöntur, svo sem svif sjávar. Ein nýlegasta hrakspáin birtist í bandaríska tímaritinu Science í nóvember 2006. Hún var, að fiskistofnar heims kynnu að hrynja næstu fjörutíu ár. Hún var forsíðuefni í Morgunblaðinu, sem átaldi síðar Jóhann Sigurjónsson, forstöðumann Hafrannsóknastofnunar, fyrir að gera lítið úr henni. Aðalhöfundur skýrslunnar er Boris Worm, ungur aðstoðarprófessor í Dalhousie-háskóla í Halifax í Nova Scotia. Fyrir misgáning sendi Worm tölvuskeyti til eins blaðamanns Seattle News, en það hafði aðeins verið ætlað samstarfsfólki hans. Þar viðurkennir Worm, að spáin um hrun fiskistofna hafi verið fréttabeita til að vekja athygli.
Vernd krefst verndara
Eftir vonda reynslu af hrakspám síðustu áratuga ættu menn að gæta sín á að hlaupa ekki á sig við nýjar hrakspár. En auðvitað er náttúruvernd mjög mikilvæg, eins og Illugi Gunnarsson hagfræðingur hefur brýnt fyrir okkur. Hver er vandinn? Hann greinist aðallega í fjóra þætti, sóun auðlinda, útrýmingu sjaldgæfra dýrategunda, mengun lofts og lagar og spjöll á útivistarsvæðum. Það, sem veldur slíkum vanda jafnan, er, að menn taka ekki með í reikninginn kostnaðinn af náttúruspjöllunum. Náttúran er ekki vernduð, af því að enginn verndar hana. Gott dæmi er fiskveiðar. Ef ótakmarkaður aðgangur er að takmarkaðri náttúruauðlind eins og fiskistofni, þá er henni sóað. Þá keppast menn við að láta greipar sópa, veiða sem mest á sem skemmstum tíma, áður en aðrir komast að. Við Íslendingar fundum lausn vandans, og aðrar þjóðir vilja nú margar fara að fordæmi okkar. Lausnin er að úthluta varanlegum og framseljanlegum afnotaréttindum, aflakvótum, til þeirra, sem höfðu stundað fiskveiðar og áttu þess vegna hagsmuna að gæta. Þannig urðu útgerðarmenn verndarar auðlindarinnar, því að þeir höfðu beinan hag af því. Þeir vilja hámarka arðinn af auðlindinni, og það gera þeir með því að taka ekki of mikið af henni hverju sinni. Ólíkt því sem áður var, geta þeir einnig skipulagt veiðarnar, svo að kostnaður verði sem lægstur. Gæðum sjávarins var í raun skipt milli einstakra útgerðarmanna og þeir gerðir ábyrgir fyrir nýtingunni, alveg eins og gæðum lands var í öndverðu skipt milli einstakra bænda og þeir gerðir ábyrgir fyrir nýtingunni.
Lítum á annað dæmi. Hvernig stendur á því, að sauðfé á Íslandi er ekki í útrýmingarhættu ólíkt fílum og nashyrningum í Afríku? Ástæðan er sú, að sauðféð er í einkaeigu. Bændur merkja sér einstaka gripi, girða sauðféð af, hirða um það. Þeir eru fjárhirðar, þótt fæstir séu ef til vill eins samviskusamir og Fjalla-Bensi, sem Aðventa Gunnars Gunnarssonar er um. En fílar og nashyrningar þar syðra eru í einskis manns eigu, þótt talsverð eftirspurn sé eftir fílabeini og öðrum afurðum þessara dýra. Fílar og nashyrningar eiga sér enga verndara. Enginn hefur hag af því að gæta þeirra. Þess vegna eru þessi dýr í útrýmingarhættu, þótt þau séu friðuð í orði kveðnu. Meira að segja hefur verið lagt alþjóðlegt bann við verslun með fílabein og horn nashyrninga. Þetta bann hefur haft þveröfugar afleiðingar við það, sem því er ætlað. Fengju tilteknir hópar að nýta fílabeinið og hornin, sæju þeir sér hag í að gæta dýranna. Hið sama er að segja um suma hvalastofna í sjónum, þótt engir hvalastofnar á Íslandsmiðum séu að vísu í útrýmingarhættu. Úr því að skilgreina mátti einkaafnotarétt af einstökum fiskistofnum, jafnvel síld og loðnu, sem eru á fleygiferð um allt Norður-Atlantshaf, hlýtur að vera unnt að skilgreina einkaafnotarétt af eða kvóta á hvalastofnum. Svipað er að segja um skógrækt og námugröft. Ef eignaréttindi eða varanleg og framseljanleg afnotaréttindi eru viðurkennd á slíkum auðlindum, þá stilla menn nýtingu þeirra í hóf. Þá tekst að sætta sérhagsmuni og almannahagsmuni, og menn græða á gæðum.
Mengun hlýst af hinu sama og sóun auðlinda og útrýming dýrategunda, að enginn er verndarinn. Þess vegna borgar mengunin sig. Einfalt dæmi um mengun er, þegar verksmiðja stendur við vatn og veitir þangað úrgangi, svo að veiði spillist fyrir landeigendum. Verksmiðjan tekur ekki með í reikninginn kostnaðinn fyrir landeigendurna af menguninni. Lausn vandans í þessu dæmi felst í því, að skilgreindur sé eignarréttur á vatninu. Þá vernda eigendurnir vatnið fyrir spjöllum. Önnur afbrigði mengunar eru ekki eins auðleyst, til dæmis peningalykt frá loðnubræðslu eða hávaði nálægt flugvelli. En þá má hugsa sér að meta mengunina til fjár til að minnka hana og bæta þeim, sem verða fyrir henni, það upp með fénu. Þetta er hugmyndin að baki svokölluðum mengunarsköttum. Við komum aldrei í veg fyrir alla mengun, en við getum haldið henni í hæfilegu lágmarki með myndun eignaréttinda eða með eðlilegri verðlagningu. Mengunin má ekki borga sig. Auðvitað er líka sjálfsagt að girða með ströngum reglum fyrir margvíslega loft-, sjón- og hljóðmengun í þéttbýli, eins og Gísli Marteinn Baldursson borgarfulltrúi hefur rökstutt. Íslendingar hafa efni á því. Aðalatriðið er þó, að koma má í veg fyrir margvísleg náttúruspjöll með frjálsum viðskiptum frekar en valdboði.
Hlýnun jarðar og íslensk stóriðja
Sá mengunarvandi, sem flestum Íslendingum er eflaust efst í huga, er losun gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftið, aðallega koltvísýrings, ekki síst frá bílum, en líka flugvélum, skipum og verksmiðjum. Það er að vísu umdeilt, hvort þessi losun á einhvern þátt í því, að jörðin hefur hlýnað um nálægt einu hitastigi síðustu hundrað ár. Hitastig hefur áður sveiflast upp og niður, og voru jöklar til dæmis miklu minni á landnámsöld, þegar lítil var losunin, en nú. Vatnajökull hét áður Klofajökull, væntanlega vegna þess að hann var tvískiptur, klofinn. Jafnvel þótt losun koltvísýrings og ígildis hans ætti einhvern þátt í hlýnun jarðar, er augljóst, að hún ætti ekki allan þátt í henni, heldur kæmu sveiflur hitastigs þar við sögu. Óvíst er einnig, hvort hugsanlegar takmarkanir á losun koltvísýrings hefðu úrslitaáhrif á þróunina. Til dæmis er talið, að sú minnkun á slíkri losun, sem gert er ráð fyrir í svokallaðri Kyoto-bókun, muni ekki minnka hlýnun jarðar um nema 0,1-0,2 stig. Hvað sem því líður, þarf ekki að þræta um það, að koltvísýringur mengar andrúmsloftið og gott væri að draga úr losun hans. Allir áhugamenn um náttúruvernd ættu að vera því hlynntir. Við Íslendingar búum að vísu flestir svo vel, að við hitum upp hús okkar með heitu vatni, sem dælt er úr iðrum jarðar, en þurfum hvorki að brenna kolum né olíu til þess eins og margar aðrar þjóðir, en við það er koltvísýringur losaður í andrúmsloftið. Þykkur kolamökkur lá yfir Reykjavík fram á fimmta áratug, áður en hitaveita komst í gagnið.
Við Íslendingar njótum þess og, að við framleiðum rafmagn með vatns- og gufuaflsvirkjunum, sem hafa í för með sér litla sem enga mengun, enda segir með velþóknun í skýrslu breska hagfræðingsins Nicholas Sterns haustið 2006 um hugsanleg gróðurhúsaáhrif, að losun koltvísýrings á mann frá raforkuvinnslu á Íslandi sé hin minnsta í aðildarríkjum O. E. C. D. Aðrar þjóðir lúta að lakari orkugjöfum, kolum, olíu eða kjarnorku. Rafmagnið seljum við heimilum, fyrirtækjum, járnblendiverksmiðju og álbræðslum, sem eru nú raunar orðnar aðalkaupendurnir. Ál er miklu léttara en aðrir málmar, sem notaðir eru í farartæki eins og bíla og flugvélar, svo að við notkun þess sparast eldsneyti. Í þeim skilningi er ál vistvænt. Jakob Björnsson, fyrrverandi orkumálastjóri, telur, að álið, sem framleitt er á Íslandi, hafi árið 2004 sparað losun á 1.628 þúsund tonnum af koltvísýringi og ígildi þess út í andrúmsloftið. Þar eð íslenskur áliðnaður losaði sjálfur það ár 446 þúsund tonn út í andrúmsloftið, nam hreinn ávinningur af íslenskum álbræðslum frá þessu sjónarmiði séð 1.182 þúsund tonnum. Það blasir síðan við, að Íslendingar breyta litlu sem engu um heildareftirspurn eftir áli í heiminum. Ef það er ekki unnið með rafmagni úr íslenskum vatns- eða gufuaflsvirkjunum, þá er það framleitt erlendis með brennslu á eldsneyti, sem hefur í för með sér stórkostlega losun koltvísýrings út í andrúmsloftið. Talið er, að með því að framleiða álið hér sparist 3.474 þúsund tonn af koltvísýringi, sem ella hefði verið losað út í andrúmsloftið annars staðar í heiminum. Íslendingar hafa því beinlínis stuðlað að náttúruvernd með því að bjóða álbræðslum stað.
Raunar er ekki líklegt, að Íslendingar þurfi lengi að deila sín í milli um, hvort virkja eigi fallvötn í því skyni að selja rafmagn til álframleiðslu. Hæpið er að dómi ýmissa sérfræðinga, að álfyrirtæki geti framvegis boðið nógu hátt verð fyrir rafmagnið til þess, að þetta borgi sig miðað við aðra notkun tiltæks fjármagns. Stóriðja er aðeins einn kostur af mörgum, sem skoða þarf fordómalaust (og það verður sennilega ekki gert, fyrr en Landsvirkjun er orðin einkafyrirtæki). En við hljótum auðvitað að halda áfram einhverjum vatns- og gufuaflsvirkjunum sjálfra okkar vegna. Einhverjir hafa verið andvígir virkjunum vegna þess, að útivistarsvæði fari undir vatn, þegar ár eru stíflaðar og leiddar í annan farveg í því skyni að nýta fallþunga þeirra. En fegurstu útivistarsvæði á Íslandi liggja einmitt við vötn. Elliðavatn tvöfaldaðist, þegar Elliðaárnar voru virkjaðar, og þykir prýði að. Þórisvatn er notað sem uppistöðulón virkjana á Þjórsársvæði. Þar er víða fallegt um að litast. Þingvallavatn stækkaði mjög við eldgos fyrir mörg þúsund árum. Sama er að segja um Mývatn. Skiptir máli, hvort eldgos lokar fyrir afrennsli, svo að stöðuvatn myndast, eða mannshöndin? Skiptir máli, hvort efnið í stíflunni er úr hrauni eða steypu? Á hálendinu íslenska er allt fullt af grjóti. Fleiri vötn þar jafngilda frekar umhverfisbótum en náttúruspjöllum. Stæra Finnar sig ekki af því að búa á landi hinna þúsund vatna? Margir tóku áreiðanlega undir með Hjörleifi Guttormssyni, þegar hann skrifaði í Árbók Ferðafélagsins 1987 um svæðin, sem fóru undir vatn við Kárahnjúka: Þetta eru afar afskekkt svæði og fáfarin, nema helst af smalamönnum á haustin. Þangað er líka fremur fátt að sækja fyrir ferðamenn, nema þá til að skoða hreindýr og minjar um framrás Brúarjökuls. Hvort tveggja er þó aðgengilegt með auðveldari hætti annars staðar.
Frelsið er rautt og grænt
Hér á Íslandi hefur jöfnuður stóraukist við það, að skipulagið hefur opnast og tækifærum fjölgað, eins og ég sýndi fram á í síðustu viku. Íslendingum hefur líka tekist ágætlega upp í náttúruvernd, þótt alltaf megi vitanlega gera betur. Skipulag fiskveiða á Íslandsmiðum er vel fallið til verndar fiskistofnum, og við öflum hita og rafmagns án þeirrar mengunar, sem flestar aðrar þjóðir eru sekar um. Við eigum að halda áfram að prýða og bæta umhverfi okkar, en það gerist ekki með yfirlýsingum á fundum, heldur því að finna gæðum náttúrunnar verndara. Náttúran er verðmæt, og þess vegna ber að verðleggja hana. Frelsið er rautt, af því að það stefnir að jöfnuði, og frelsið er grænt, af því að það stuðlar að náttúruvernd. Frelsið er í öllum regnbogans litum.
Lesbók Morgunblaðsins 31. mars 2007.