Skemmtilegt spjall um Sjálfstætt fólk

v2-141129957.jpgMiðvikudagskvöldið 19. nóvember tók ég þátt í spjallfundi um Sjálfstætt fólk Halldórs Kiljans. Hann fór fram í Stúdentakjallaranum milli 17 og 18.30, og vorum við framsögumenn Illugi Jökulsson, Dagný Kristjánsdóttir bókmenntafræðingur, Símon Birgisson leikhúsfræðingur og Þorleifur Örn Arnarsson leikstjóri. Sögðu þeir Símon og Þorleifur Örn frá hugleiðingum sínum undirbúningi sínum undir fyrirhugaða leikgerð verksins á fjölum Þjóðleikhússins, en við Dagný og Illugi ræddum um söguhetjur verksins.

Ég benti á þrennt, sem hefur ekki vakið mikla athygli í greiningu á verkum Laxness. Eitt er ástarþríhyrningur, sem er ekki settur saman úr tveimur konum og einum karli eða öfugt, heldur úr fremur þroskuðum og rosknum karli, sem keppir ótrauður að voldugri hugsjón, ungri — stundum kornungri stúlku — sem truflar hann um stund í þessari keppni, og hugsjóninni, sem að lokum sigrar oftast. Arnaldur og Salka Valka, og hugsjónir Arnalds og brotthvarf; Bjartur í Sumarhúsum og Ásta Sóllilja; Ólafur Kárason og konur hans; Arnas Arnæus og Snæfríður Íslandssól; Búi Árland og Ugla.

Einnig benti ég á, að sumar söguhetjur Laxness eru barnaníðingar, paedophilar, til dæmis Ólafur Kárason, þótt hann hafi venjulega notið óskiptrar samúðar lesenda, af því að hann er minnipokamaður, „loser“ á bandarískri ensku. Salka Valka, Steinunn í Paradísarheimt og fleiri ungar stúlkur eru það, sem kallað er nú á dögum misnotaðar.

Hið þriðja er, að sögunum lýkur með brotthvarfi söguhetjunnar, og hún á sér því engan enda — eða opinn. Þar er hliðstætt, þegar Bjartur í Sumarhúsum fer upp á heiði og Ólafur Kárason upp á jökulinn. Hvað gera þeir síðan? Það er fróðlegt efni hliðarsögu, hypothetical history. Endirinn minnir á smásöguna „Vonir“ eftir Einar H. Kvaran, nema hvað þar er farið á kanadísku sléttuna, sem er sennilega tákn um sjálfsvíg. Laxness sótti margt til Einars Kvarans og líka til Jóns Trausta, sem samdi örlagasögur um fólk á heiðarbýlum. En lausn Jóns Trausta var, að Halla á heiðarbýlinu snýr niður til byggða, og þar finnur hún frelsi. Sú lausn er sögulega rétt: Þetta gerði fólk, sem lítið átti undir sér, í sveitum á Íslandi. Það fann frelsið í kapítalismanum, annaðhvort með því að flytjast að sjávarsíðunni eða til Vesturheims. Fyrr á öldum hafði slíkt fólk soltið í hel og landið aldrei borið meira en 50 þúsund manns.

Enginn vafi er á því, að Sjálfstætt fólk átti að vera ádeila á Bjart í Sumarhúsum og sveitasælutal. Hefur Illugi Jökulsson talið Bjart dæmi um harðstjóra, jafnvel ófreskju. En Bjartur brýtur sér leið út úr ramma Laxness og verður að hetju vegna þrjósku sinnar, seiglu og festu. Hann tekur hverjum ósigri með því að halda áfram. Laxness hefur sett dálítið af sjálfum sér í hann, því að þetta einkenndi hann, ekki síst fyrstu árin, þegar hann varð fyrir miklu andstreymi. Þannig varð andhetjan óvart að hetju.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband