24.5.2013 | 08:38
Árni Vilhjálmsson: Minningarorð
Eftirfarandi minningargrein birtist í Morgunblaðinu 15. mars 2013:
Árni Vilhjálmsson bar ekki utan á sér, að hann var einn auðugasti útgerðarmaður landsins. Hann var meðalmaður á hæð, grannvaxinn, með hvasst nef, örlítið lotinn í herðum, bláeygur, rjóður í vöngum og útitekinn eins og erfiðismaður, hógvær og kurteis, oftast með bros á vör og vildi bersýnilega forðast átök. En undir niðri var hann maður afar ákveðinn, jafnvel ráðríkur, ljóngáfaður og harðduglegur. Í honum sameinaðist á fágætan hátt fræðimaður og framkvæmdamaður.
Árni var eindreginn frjálshyggjumaður, og kynntist ég honum fyrst, þegar hann var formaður nefndar, sem Matthías Á. Mathiesen, þá fjármálaráðherra, skipaði 1977 til að skoða sölu ríkisfyrirtækja, en ungir sjálfstæðismenn höfðu þá undir forystu Friðriks Sophussonar markað sér stefnu undir kjörorðinu Báknið burt. Gerði Árni grein fyrir niðurstöðum nefndarinnar í tímaritinu Frelsinu 1983. Ríkisstjórnin 19831987 framkvæmdi margar tillögur nefndarinnar. En Árni lét sér ekki nægja að skrifa um einkarekstur. Hann vildi skapa. Árið 1988 keyptu hann og viðskiptafélagi hans og vinur, Kristján Loftsson, mestallan hlut borgarinnar í útgerðarfélaginu Granda, en Davíð Oddsson, þá borgarstjóri, hafði haft forgöngu um stofnun þess 1985 upp úr Bæjarútgerð Reykjavíkur, sem lengi hafði verið rekin með stórtapi. Eru allir nú sammála um, að þetta hafi verið hið mesta heillaráð.
Þegar ég sneri til Íslands haustið 1985 eftir nám í Oxford, hafði ég helst hug á því að kenna í viðskiptafræðideild. Árni var þar þá prófessor og deildarforseti og réð mig þangað í stundakennslu, sem ég sinnti um skeið mér til ánægju. Við héldum góðri vináttu, eftir að ég fluttist yfir í félagsvísindadeild. Árni fór vandlega yfir lítið rit, sem ég skrifaði vorið 1990 um skipulag fiskveiða, þar sem ég mælti eindregið með kerfi varanlegra og framseljanlegra aflakvóta. Fórum við eitt kvöldið eftir vinnu að handritinu á veitingastaðinn Café Óperu og héldum duglega upp á verkið. Árni kunni vel að gleðjast á góðri stund, þótt hann væri hófsmaður á vín. Einnig er mér minnisstæður kvöldverður með Árna og dr. Benjamín Eiríkssyni á veitingahúsinu Við Tjörnina, eftir að ég hafði gefið út ævisögu Benjamíns haustið 1996. Spurði Árni Benjamín spjörunum úr um ár hans í Harvard-háskóla, en þar hafði Árni einnig stundað nám. Rifjaði Benjamín líka upp margar skemmtilegar sögur af því, þegar hann var ráðgjafi ríkisstjórnar Íslands og bankastjóri Framkvæmdabankans, og var hlegið dátt.
Eftir að Árni sagði lausu prófessorsembætti sínu og sneri sér óskiptur að rekstri Granda, hittumst við ekki oft, en töluðum stundum saman í síma. Síðasti fundur okkar var á Hótel Borg vorið 2008, þar sem við drukkum saman kaffi með Kristjáni Loftssyni. Árni lét þá í ljós áhyggjur af hinum mikla kostnaði, sem hlaðist hafði á mig vegna málareksturs fyrir dómstólum í Reykjavík og á Bretlandi, og bauð fram myndarlega aðstoð, sem ég þáði með þökkum. Sýndi Árni það þá, sem ég vissi raunar fyrir, að hann var sannur höfðingi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook