24.3.2013 | 21:31
Halda Ögmundur og Össur verndarhendi yfir tölvuþrjóti?
Afskipti Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra og Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra af máli tölvuþrjóts þess, sem gengur undir nafninu Siggi, eru mjög undarleg. Ég hygg, að það sé einsdæmi, að ráðherrar hafi á þennan hátt afskipti af og reyni að stöðva rannsókn lögreglumáls.
Tölvuþrjóturinn er gamalkunnur. Hann hóf ungur brotaferil. Til dæmis braust hann inn í tölvukerfi lögmannsstofu í Reykjavík og seldi DV upplýsingar þaðan, sem það notaði í herferð sinni gegn formanni Sjálfstæðisflokksins. Um skeið var þessi maður tengdur Wikileaks, sem nú þvær hins vegar hendur sínar af honum.
Rekið var upp ramakvein, þegar tölvuþrjóturinn var handtekinn við innbrotstilraun í Málningu í Kópavogi á sínum tíma, og töldu sumir þetta vera ofsóknir gegn Wikileaks. Innbrotstilraunin var hins vegar ótengd Wikileaks.
Siggi hafði að eigin frumkvæði samband við bandaríska sendiráðið í Reykjavík, og starfsmenn alríkislögreglunnar bandarísku, sem yfirheyrðu hann, gerðu það í fullu samstarfi við hann. Virðist svo sem slitnað hafi upp úr samstarfi Sigga og Wikileaks, og hann hafi við svo búið leitað til bandarískra yfirvalda.
En hvers vegna vilja ráðherrar í ríkisstjórn Íslands halda verndarhendi yfir tölvuþrjóti og brotamanni? Hvers vegna reyna þeir að stöðva rannsókn á máli hans? Það er mér hulin ráðgáta. Og fara þeir ekki yfir eðlileg mörk á milli sín og lögreglunnar með þessum afskiptum?
Til samanburðar verður að skoða annars vegar endurteknar ásakanir um afskipti ráðherra af rannsókn Baugsmálsins, sem reyndust ósannar, og hins vegar nána samvinnu sérstaks saksóknara og breskra eftirlits- og lögregluyfirvalda. Almennar reglur verða að gilda um embættisfærslur, ekki geðþótti.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook