Cuba Libre

Tvær eru þær tegundir staða, sem reknir eru mönnum til yndis og ánægjuauka hér í Reykjavík: vínstúkur (barir á vondri íslensku) og bókabúðir.

Nú er ljóst, hvaða drykki menn báðu um á vínstúkunum í janúarlok 2013: Cuba Libre (Frjáls Kúba), í tilefni þess að EFTA-dómstóllinn sýknaði íslenska ríkið af öllum sökum í Icesave-málinu. Því hafði verið spáð, eins og frægt er, ef við Íslendingar samþykktum að greiða skuldir óreiðumanna í stað þess að standa á rétti okkar, að við yrðum Kúba norðursins. Í Cuba Libre eru sem kunnugt er hvítt romm, kók og lime.

Næsta víst er líka, hvaða bók menn báðu um næstu daga í bókabúðunum: Icesave-samningarnir. Afleikur aldarinnar? eftir Sigurð Má Jónsson blaðamann. Var hún til til sölu með afslætti, á aðeins 990 krónur, í tilefni dómsins. Þar rekur Sigurður Már sögu Icesave-málsins. Hann lýsir því með tilþrifum, hvernig átti að lauma málinu í gegnum þingið, eftir að þeir Svavar Gestsson og Indriði Þorláksson höfðu samið af sér (eftir öllum mælikvörðum, því að þrátt fyrir allt náði Lee Buchheit miklu betri samningi síðar). Margt fleira fróðlegt kemur fram í þeirri bók. Ef hún verður endurprentuð (eða sett á Netið), þá þarf hins vegar að taka spurningarmerkið úr titlinum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband