16.3.2013 | 09:11
Ólafur Ragnar hafði rétt fyrir sér
Ólafur Ragnar Grímsson hefur rétt fyrir sér um það, eins og hann sagði á fyrirmannafundi í Davos í Sviss, að fiskveiðistefna Evrópusambandsins, Common Fisheries Policy, er misheppnuð. Ég held, að Íslendingar geri sér ekki almennt grein fyrir því, hversu mótsagnakennd og raunar hættuleg þessi stefna er. Samkvæmt grænbók, sem ESB lét sjálft taka saman 2009, eru 88% fiskistofna innan efnahagslögsögu ESB ofveiddir í þeim skilningi, að árlegur afli fer fram úr sjálfbærum hámarksafla. Nokkrir þessara stofna eru nálægt hruni.
Nýjar tilraunir ESB til að endurskoða stefnuna hafa ekki borið árangur. Okkur Íslendingum tókst hins vegar í langri þróun að koma okkur upp hagkvæmu kerfi í fiskveiðum, kvótakerfinu, þar sem útgerðarmenn vinna að almannahag, um leið og þeir keppa að eigin hag, en galdurinn er ætíð að reyna að sameina þetta tvennt. Menn eru skynsamir, ef skynsemin borgar sig, og óskynsamir, ef hún gerir það ekki. Það var ekki að ófyrirsynju, þegar Wall Street Journal skrifaði á dögunum, að aðför núverandi ríkisstjórnar að kvótakerfinu líktist helst efnahagslegu sjálfsmorði.
Rannsóknarsetur um nýsköpun og hagvöxt hélt ráðstefnu 6. október 2012, þar sem helstu sérfræðingar Íslendinga í stofnana- og fiskihagfræði og yfirmenn og aðalsérfræðingar Alþjóðabankans, FAO og OECD héldu erindi um sjálfbærar og arðbærar fiskveiðar. Hér má lesa blaðaviðtöl við tvo fyrirlesaranna, þá dr. Þráin Eggertsson prófessor og dr. Gunnar Haraldsson, sem þá var sérfræðingur OECD í fiskveiðimálum, en er nú orðinn forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands. Hér er viðtal við dr. Ragnar Árnason prófessor af sama tilefni og hér við dr. Rögnvald Hannesson prófessor.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook