Gusugangur í Ólafi Arnarsyni

Arreboe Clausen var lengi einkabílstjóri forsætisráðherra. Hann var grandvar maður, trúr yfirmönnum sínum, en ræðinn og skemmtilegur. Eins og nærri má geta, heyrði hann margt í starfi sínu.

Einhvern tímann sat Arreboe að skrafi við annan mann, og bar á góma ýmis mál, sem þá voru ofarlega á baugi. Viðmælandi hans sagði, þegar Arreboe varðist frétta af þeim: „Ert þú ekki innsti koppur í búri allra stjórnmálaflokka?“ Arreboe svaraði: „Jú, ég er það, en sá koppur lekur ekki.“

Ólíku er saman að jafna, Arreboe Clausen og Ólafi Arnarsyni. Annar var trúr í starfi, hinn er þægur þjónn huldumanns, sem allir vita þó, hver er. Ólafur lekur ekki aðeins, heldur skvettist úr honum í allar þær áttir, sem vinnuveitandi hans miðar í.

Það er aldrei skemmtilegt að verða á vegi slíkra manna, þótt mér hafi sem betur fer tekist að víkja mér undan gusunum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband