30.5.2012 | 13:14
Laxness og Shakespeare
Tómas Guðmundsson orti, að hjörtum mannanna svipaði saman í Súdan og Grímsnesinu. En líklega samdi William Shakespeare ein frægustu orðin um sameðli mannanna, þegar hann lét kaupmanninn í Feneyjum segja: Hefur Gyðingur ekki augu? hefur Gyðingur ekki hendur, líffæri, sköpulag, skilningarvit, hvatir, ástríður, alinn á sömu fæðu, særður sömu vopnum, haldinn sömu sjúkdómum, græddur sömu lyfjum, vermdur og kalinn af sama vetri og sumri og kristinn maður? Blæðir okkur ekki af stungum? hlæjum við ekki af kitlum? deyjum við ekki af eitri? og hefnum við ekki ranglætis? Ef okkur svipar saman um annað, þá líkjumst við ykkur þar.
Sænska skáldið August Strindberg notaði svipuð ummæli í leikritinu Föðurnum: Já, ég græt þótt ég sé karlmaður. En hefur karlmaður ekki augu? Hefur hann ekki hendur, fætur, skilningarvit, smekk, ástríður? Nærist hann ekki sömu fæðu, særa hann ekki sömu vopn, hitnar honum ekki og kólnar í sama sumaryl og vetrarkulda og konu? Blæðir okkur ekki ef þið stingið okkur? Stöndum við ekki á öndinni ef þið kitlið okkur? Deyjum við ekki ef þið byrlið okkur eitur? Hvers vegna skyldi karlmaður ekki mega kvarta, hermaður ekki mega gráta? Af því að það er ókarlmannlegt! Hvers vegna er það ókarlmannlegt?
Bergmálið frá Shakespeare er sterkt í leikriti Strindbergs, en daufur endurómur af því í leikriti norska skáldsins Henriks Ibsens, Brúðuheimilinu, þegar Nora mælir: Ég trúi því ég sé fyrst og fremst manneskja, maður, ég alveg jafnt og þú eða að minnsta kosti, að ég eigi að reyna að verða það. Ég veit vel, að flestum finnst þú hafa rétt fyrir þér, Þorvaldur, og áreiðanlega stendur eitthvað svoleiðis í bókum. En ég get ekki lengur látið mér nægja það sem flestir segja eða það sem stendur í bókum. Ég verð sjálf að hugsa málin og komast til skilnings um þau.
Og nú hljóta aðdáendur Halldórs Kiljans Laxness á Íslandi að sjá, hvaðan ræða Uglu í Atómstöðinni er ættuð: Ég vil verða maður. Maður, hvernig? Hvorki kauplaus ambátt einsog konur þeirra fátæku né keypt maddama einsog konur þeirra ríku; þaðanaf síður launuð hjákona; og ekki heldur fángi barns sem mannfélagið hefur svarið fyrir. Maður með mönnum: ég veit það er hlægilegt, fyrirlitlegt, svívirðilegt og byltíngarsinnað, að kvenmaður skuli ekki vilja vera einhver tegund ambáttar eða skækju. En ég er nú svona gerð.
Það er skemmtileg tilviljun, að Laxness fæddist á dánardegi Shakespeares, 23. apríl.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook