Rússagrýlan

Ég hef minnst hér áður á grýlu, sem kaffihúsamönnum í Reykjavík varð tíðrætt um á árum áður, eins og Jón Óskar rithöfundur lýsir í endurminningum sínum. Hún kallaðist „Morgunblaðslygin“. En til var önnur grýla, sem sömu menn hæddust óspart að: „Rússagrýlan,“ sem ætti sér enga stoð í veruleikanum, enda aðeins Morgunblaðslygi. Fyrst kom orðið fyrir, svo að ég viti, í fyrirsögn leiðara Þjóðviljans 22. mars 1946, en oft eftir það.

Töldu margir, að viðbúnaður við landvinningastefnu Kremlverja væri ekki aðeins ástæðulaus, heldur einnig hlægilegur. Þegar Matthías Johannessen, ritstjóri Morgunblaðsins, birti sumarið 1968 í blaði sínu dagbókarbrot úr veiðiferðum og lýsti þar áhyggjum af framkomu Kremlverja við Tékkóslóvaka, skrifaði Sverrir Hólmarsson bókmenntafræðingur skopstælingu í Frjálsa þjóð: „Nú finn ég á mér, að Rússar eru um það bil að ráðast inn í Tékkóslóvakíu. Guð hjálpi Tékkum.“

Dátt var eflaust hlegið á ritstjórnarskrifstofu Frjálsrar þjóðar, þegar þetta birtist þar 15. ágúst 1968. Væntanlega var hláturinn þagnaður fimm dögum síðar, en Rauði herinn rússneski réðst inn í Tékkóslóvakíu aðfaranótt 21. ágúst 1968.

Árni Björnsson þjóðháttafræðingur benti síðan á það í Rétti 1973, að Kremlverjar hefðu aðeins verið uppivöðslusamir í Austur-Evrópu: „En hvers vegna hafa þeir haldið sig á þessu tiltölulega litla svæði, ef þeir eru svo útþenslusamir, en ekki ólmast inn í þau mörgu hernaðarlega veiku lönd, sem liggja umhverfis hin víðlendu Sovétríki og hafa þó ekki verið í neinu hernaðarbandalagi við Bandaríkin? Sem dæmi skulu nefnd Indland, Afganistan, Írak, Júgóslavía og Austurríki.“ Árni svaraði sjálfum sér: „Ástæðan er ofureinföld. Það hefur alltaf verið lygi, að árás frá Sovétríkjunum væri yfirvofandi.“

Samtök herstöðvaandstæðinga gáfu ritgerð Árna út sérprentaða. Ekki fylgir sögunni, hvort dreifingin var stöðvuð á jólum 1979, þegar Rauði herinn réðst inn í Afganistan.

(Þessi fróðleiksmoli birtist í Morgunblaðinu 29. apríl 2012.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband