Fall bankanna: Hvað gerðist að tjaldabaki?

Þegar litið er um öxl, sést, að Ísland slapp betur út úr hinni alþjóðlegu lánsfjárkreppu en mörg önnur lönd, ekki síst vegna þess, að hér voru ekki greiddar skuldir óreiðumanna, eins og Davíð Oddsson orðaði það svo eftirminnilega. En dálkahöfundur Viðskiptablaðsins, Óðinn, rifjar í tilefni dómsins yfir Geir H. Haarde upp afar fróðleg atriði um fall bankanna:

Í dómnum er sagt frá því að 20. mars 2008 hafi Jón Steinsson hagfræðingur sent Geir tölvupóst þarsem hann sagði nauðsynlegt að ríkið væri reiðubúið með eitthvert plan ef t.d. einn af stóru bönkunum lenti í verulegum vandræðum. Ríkið þyrfti þá að taka erlent lán til að endurlána þeim banka. Jón sagði jafnframt „spurning hvort ríkið og Seðlabankinn eigi að bjóða bönkunum upp á einhverja fjármögnunarkosti í erlendri mynt áður en málin komast á það stig að einhver bankanna verður kominn í veruleg vandræði“.

Sama dag sendi prófessor Richard Portes, hagfræðingur sem Verslunarráð hafði ráðið í almannatengsl, tölvupóst sem komið var á framfæri við forsætisráðuneytið. Þar lagði hann til að forsætisráðherra, forstjóri FME og seðlabankastjóri lýstu því yfir opinberlega að bankarnir væru í grundvallaratriðum traustir, öll úrræði Seðlabanka Íslands og íslenska ríkisins stæðu þeim að baki og það yrði ekki látið viðgangast að þeir féllu. Með öðrum orðum áttu íslenskir skattgreiðendur að ábyrgjast bankana að fullu.

Og það voru fleiri hagfræðingar kallaðir til. Utanríkisráðherra, forsætisráðherra, fjármálaráðherra, félagsmálaráðherra og viðskiptaráðherra héldu fund með hagfræðingunum Má Guðmundssyni, Friðriki Má Baldurssyni og Gauta Eggertssyni 7. ágúst 2008, eftir að skýrsla Willem Buiters og Anne Sieberts lá fyrir. Í minnispunktum var haft eftir Gauta Eggertssyni að það væri mjög mikils virði „að standa við bakið á bönkunum“ og hættulegt að fara „í opinbera umræðu um skiptingu skuldbindinga þ.e. innlenda og erlenda“. Haft var eftir Má Guðmundssyni að mikilvægt væri að „bankarnir geti sýnt að þeir geti lifað“ og væri ódýrara fyrir ríkið að bjarga þeim en „að láta þá hrynja“. Haft var eftir Friðriki Má að það ætti „að bjarga bönkum sem eiga nægar eignir en eiga í lausafjárvanda“.

Og ekki létu bankamennirnir sitt eftir liggja í þessum söng. Í fundargerð eftir fund sem bankastjórar Landsbankans áttu með þeim Davíð Oddssyni, Ingimundi Friðrikssyni og Tryggva Pálssyni 31. júlí kemur fram að: „Halldór J. Kristjánsson hafi lýst því að hann væri ekki einn þeirrar skoðunar „að €20 þúsund sé þjóðréttarleg skuldbinding“ og Davíð svarað að engin ríkisábyrgð yrði sett nema með lögum. Halldór hafi þá sagt að afla yrði þeirrar heimildar og Davíð svarað aftur með þessum orðum: „Eruð þið að safna innlánum án þess að tala við þjóðina um skuldbindinguna? Þið tveir getið ekki gert þjóðina gjaldþrota.““ Hverju skyldi núverandi seðlabankastjóri, Már Guðmundsson, hafa svarað?

Og nú hefur Geir upplýst að José Manuel Baroso hafi hringt í sig í hruninu og lagt hart að honum að gæta hagsmuna kröfuhafa bankanna og fara írsku leiðina.

Hverju skyldu þeir Jón Steinsson, Gauti Eggertsson og Már Guðmundsson nú svara Óðni? Hvort höfðu þeir heldur í huga hagsmuni íslensku þjóðarinnar eða kröfuhafa bankanna?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband