11.3.2012 | 12:40
Ljós og myrkur
Lýsingar ungverska rithöfundarins Arthurs Koestlers og íslenska ritskýrandans Kristins E. Andréssonar á því, hvernig þeir tóku ungir menn trú á kommúnisma upp úr 1930, eru mjög svipaðar.
Koestler sagði í Guðinum sem brást 1950: Að segja, að maður hafi séð ljós er harla lítilfjörleg lýsing á þeirri andlegu hrifni, sem maður fyllist, er verður skyndilega trúaður (og skiptir þá ekki máli, til hvaða trúar hann hefur snúist). Þetta nýja ljós virtist leika um huga minn úr öllum áttum í senn; veröldin öll komst í fastar skorður eins og myndaþraut, sem ráðin hefur verið á augabragði með einhverjum töfrum.
Kristinn E. Andrésson sagði í Enginn er eyland 1971: Af fyrstu ritum, sem ég nú las af athygli um marxismann, brá eins og leiftri upp fyrir mér nýju lífsviðhorfi, sögulegum skilningi, nýjum lífstilgangi og framtíðarsýn. Allt varð mér ljóst af bragði, hugur og heimur, sagan og mannfélagið, þróun þess og markmiðin framundan.
Þótt þeir Kristinn og Koestler tækju trú sína um svipað leyti, urðu örlög þeirra ólík. Koestler fór hinn áhugasamasti til Spánar í borgarastríðinu 1936-1939. Hann kynntist þar ofríki kommúnista, sem hegðuðu sér líkt og þeir áttu eftir að gera víðar, ráku leyniþjónustu, héldu sýndarréttarhöld yfir andstæðingum sínum og tóku þá af lífi.
Áður en Koestler snerist þó opinberlega frá kommúnisma, hafði hann skrifað bók um spænska borgarastríðið. Kristinn fékk ungan samherja sinn, Þorvald Þórarinsson, þá laganema, til að þýða bókina á íslensku. En eftir að Koestler hvarf úr röðum kommúnista, var snarlega hætt við þýðinguna.
Kristinn var til dauðadags sannfærður kommúnisti, en hægri menn létu þýða tvær bækur Koestlers á íslensku, fyrrnefnt rit, Guðinn sem brást (þar sem Koestler og fimm aðrir menntamenn lýsa vonbrigðum sínum með kommúnismann) og hina merku skáldsögu um Moskvuréttarhöldin, Myrkur um miðjan dag.(Þessi fróðleiksmoli birtist í Morgunblaðinu 3. mars 2012 og er sóttur í bók mína, Kjarna málsins. Fleyg orð á íslensku, en hún er barmafull af sögum og fróðleik.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook