2.2.2012 | 15:03
Hvar er föðurlandið?
Föðurland manns er ekki nauðsynlega landið, þar sem hann fæddist eða ólst upp, enda hafa einstaklingar, fjölskyldur og þjóðir flust til í aldanna rás. En hvar er þá föðurlandið?
Gríska gamanleikjaskáldið Aristófanes svaraði í leikritinu Plútosi: Föðurland manns er, þar sem honum gengur vel.
Rómverska skáldið Marcus Pavius sagði hins vegar: Föðurland er alls staðar, þar sem gott er að vera.
Þaðan er sennilega runninn rómverski málshátturinn kunni: Ubi bene, ibi patria. Föðurlandið er hvar, sem gott er að vera.
Fjöldi afbrigða er af þessum orðum. Rómverski rithöfundurinn Quintus Curtius Rufus skrifaði til dæmis í verki um Alexander mikla: Patria est ubicumque vir fortis sedem sibi elegerit. Föðurland mikilmennis er hvar, sem hann kýs að setjast að.
Enska skáldið John Milton sagði hið sama og Aristófanes í bréfi til Peters Heimbachs 15. ágúst 1666: Our country is wherever we are well off. Föðurland okkar er hvar, sem okkur gengur vel.
Ítalska ljóðskáldið Apostolo Zeno sagði í söngleiknum Temistocle (1721): La patria al saggio è dove trova il bene. Föðurland spekingsins er hvar, sem honum líður best.
Bandaríski byltingarmaðurinn James Otis hafði hins vegar að kjörorði: Ubi libertas, ibi patria. Föðurlandið er hvar, sem ég er frjáls.
Og Stephan G. Stephansson, sem fluttist frá Íslandi til Kanada, orti 1920:
Hvar sem mest var þörf á þér,
þar var best að vera.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook