24.11.2011 | 15:57
„varð ekki birt“
Guðný Ýr Jónsdóttir, ekkja Sigfúsar Daðasonar, mótmælir í Fréttablaðinu 19. nóvember því, sem ég segi um Sigfús í nýrri bók minni, Íslenskum kommúnistum 19181998. Þar ber ég í lokakafla stuttlega saman Jón úr Vör, sem mótmælti ofbeldisverkum Kremlverja í lok sjötta áratugar, og Sigfús Daðason, sem gerði það ekki. Guðný Ýr kvartar undan því, að ég vitni ekki í heimildir. Það geri ég fyrr í bókinni, enda er þessi umsögn í lokakaflanum aðeins upprifjun á því og tilvísun til þess.
Ég átti sérstaklega við nokkur atriði, sem nefnd eru í bókinni og Guðný Ýr getur því miður ekki um.
Í fyrsta lagi var Sigfús Daðason þá ritstjóri Tímarits Máls og menningar, sem flutti lesendum sínum lof eitt um kommúnistaríkin.
Í öðru lagi starfaði Sigfús Daðason þá hjá bókafélaginu Máli og menningu, sem Kremlverjar héldu beinlínis uppi með fjárstyrkjum, enda var það þeim hliðhollt.
Í þriðja lagi réðst Sigfús Daðason harkalega 1959 á bók Borísar Pasternaks, Sívago lækni, eins og áróðursmenn Kremlverja gerðu þá um allan heim.
Í fjórða lagi gagnrýndi Sigfús Daðason 1961 opinberlega flóttamanninn Tibor Merlay, sem hingað kom til að segja frá kúgun kommúnista í Ungverjalandi.
Í fimmta lagi hafnaði Sigfús Daðason 1963 ritgerðum Arnórs Hannibalssonar í Tímarit Máls og menningar um kúgun kommúnista í Ráðstjórnarríkjunum og þjónkun íslenskra kommúnista við Kremlverja.
Í sjötta lagi neitaði Sigfús Daðason að segja neitt opinberlega 1963 um uppgjör Halldórs K. Laxness við kommúnismann í Skáldatíma, þótt Morgunblaðið leitaði eftir því.
Á sama tíma birti Jón úr Vör magnað kvæði gegn kúgun Kremlverja, Lítil frétt í blaðinu.
Ekkja Sigfúsar Daðasonar segir síðan í grein sinni frá því, sem ég vissi raunar fullvel fyrir, að til er handrit að grein eftir Sigfús, þar sem hann andmælir innrás Kremlverja í Tékkóslóvakíu 1968. Á greinina var skrifað varð ekki birt. Með þessu staðfestir ekkjan mál mitt, svo að ekki þarf frekar vitnanna við. Sigfús Daðason treysti sér ekki til þess, þótt hann væri ritstjóri Tímarits Máls og menningar, að birta grein eftir sig um innrásina 1968 gegn vilja annarra ráðamanna Máls og menningar.
Það var einmitt gegn slíkri þögn og slíkri þöggun, sem ég samdi bók mína. Grein Guðnýjar Ýrar er frekari staðfesting á því, hversu nauðsynlegt var að ráðast í það verk. Sem betur fer þurfti ekki að skrifa á handritið að bók minni varð ekki birt.
(Grein í Fréttablaðinu 22. nóvember 2011.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook