16.11.2011 | 09:42
Viðtal við mig í Kastljósi
Ég var í Kastljósi Sjónvarpsins miðvikudaginn 9. nóvember 2011 vegna hinnar nýju bókar minnar, Íslenskir kommúnistar 19181998. Upptöku af þættinum má sjá hér. Þar rifjaði ég upp, að bók mín hófst á Grænatorgi í nóvember 1918, þegar þeir Brynjólfur Bjarnason og Hendrik Siemsen Ottósson lentu í götuóeirðum og urðu kommúnistar, og henni lauk í Havana á Kúbu í nóvember 1998, þegar Svavar Gestsson og Margrét Frímannsdóttir fóru þangað í boðsferð til kúbverska kommúnistaflokksins.
Í bókinni kemur fram, að hin íslenska hreyfing, sem oft hafði hamskipti, hét fyrst kommúnistaflokkur, síðan Sósíalistaflokkur og loks Alþýðubandalag, hafði miklu sterkari og nánari tengsl við hina alþjóðlegu hreyfingu en talið hefur verið fram að þessu. Styð ég þessa niðurstöðu rannsóknum í skjalasöfnum og bókasöfnum víða um heim, en í bókinni naut ég góðs af gögnum, sem Arnór Hannibalsson hafði safnað í rússneskum söfnum, og einnig af traustum frumrannsóknum sagnfræðinganna Þórs Whiteheads og Snorra G. Bergssonar, sem báðir veittu mér aðgang að fjölda merkilegra heimilda.
Leitaðist ég við að vinna úr öllu þessu efni lipran og hnökralausan texta og finna myndir, sem skýrðu það og dýpkuðu í vitund lesandans, en um 500 myndir eru í bókinni.
Margir gamlir fylgismenn þessarar hreyfingar tóku mér ljúfmannlega og greiddu úr spurningum, svo að ofsagt er á visir.is að kommúnistar hafi hunsað mig, þótt vissulega hafi sumir ekki kært sig um að svara mér um ýmis atriði, til dæmis Svavar Gestsson. Líklega kalla fáir sig raunar enn kommúnista.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:44 | Facebook