15.11.2011 | 06:40
Viðtal við mig í DV
Föstudaginn 11. nóvember 2011 birtist við mig viðtal í föstum dálki, Innlit, í DV. Þar var rætt við mig um lífið og tilveruna og litið inn á heimili mitt. Ég sagði blaðakonunni, Svövu Jónsdóttur, sem satt var, að síðustu mánuði hefði líf mitt snúist um að ljúka því verki, sem nú er komið út, Íslenskum kommúnistum 19181998. Í þeirri bók, sem dreift hefur verið í búðir, sýndi ég fram á það með ótal heimildum, að kommúnistunum íslensku var alvara með því, sem þeir sögðu. Þeir voru kommúnistar og vildu gera byltingu. Þess vegna voru þeir ekki í sama flokki og íslenskir jafnaðarmenn. Tengsl þeirra við einræðisstjórnir kommúnista náðu miklu lengra og víðar en vitað hefur verið fram að þessu: Þeir tóku við fyrsta fjárstyrkinum frá Moskvu 1919 og fóru í síðustu boðsferðina til kommúnistaríkisins Kúbu 1998.
Kommúnisminn var mannskæðasta stjórnmálahreyfing sögunnar og mun hafa kostað hátt í hundrað milljónir mannslífa. Þessi alþjóðlega hreyfing átti sér öflugt útibú á Ísland, þar sem var fyrst kommúnistaflokkurinn, síðan Sósíalistaflokkurinn og loks Alþýðubandalagið, þótt ekki sé unnt að kalla það hreinræktaðan kommúnistaflokk. En gamli kjarninn í Alþýðubandalaginu, sem kom úr kommúnistaflokknum og Sósíalistaflokknum, var samt alla tíð ófáanlegur til að gera upp við sovétkommúnismann þrátt fyrir ótal tillögur um það, meðal annars frá þeim Össuri Skarphéðinssyni og Hrafni Jökulssyni, á meðan þeir störfuðu í Alþýðubandalaginu.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook