Hengdur fyrir að kaupa fisk af Íslendingum

Á tuttugustu öld hafa Íslendingar haft ýmis óvenjuleg kynni af íbúum Tékkóslóvakíu.

Sumum í Halldórseigendafélaginu íslenska gramdist, þegar ég benti á það, að Atómstöðin eftir Laxness, eitt beittasta vopn íslenskra kommúnista gegn varnarsamstarfi við Bandaríkin, væri að miklu leyti sniðin eftir skáldsögunni Sveitastúlkunni Önnu (sem hét í þýskri þýðingu af tékknesku Anna. Das Mädchen vom Lande). Höfundur sögunnar var rithöfundurinn og kommúnistinn Ivan Olbracht, en landi hans og skoðanabróðir, Otto Katz, sneri henni á þýsku.

Otto Katz var eitt stærsta tannhjólið í hinni risavöxnu áróðursvél kommúnista í Evrópu milli stríða. Undir dulnefninu André Simone skrifaði hann margar bækur, og var ein þeirra gefin hér út 1943 í þýðingu Sverris Kristjánssonar, Evrópa á glapstigum. Katz var ævintýramaður og talinn fyrirmynd Victors Lazslos í Casablanca og Kurts Mullers í Vörður við Rín (Watch on the Rhine), sem báðar voru sýndar hér á landi. Hann barðist í spænska borgarastríðinu, skipulagði undirróður meðal leikara í Hollywood og varð ritstjóri aðalblaðs kommúnista í Tékkóslóvakíu eftir valdarán þeirra þar 1948. Í hreinsunum innan kommúnistaflokksins 1952 var hann leiddur fyrir rétt og hengdur.

rudolfmargolius.jpgÁ sakamannabekk með Katz sat aðstoðarráðherra í ríkisstjórn kommúnista, dr. Rudolf Margolius, sem sá um utanríkisviðskipti. Hann var eins og Katz af gyðingaættum og hafði setið í fangabúðum nasista í stríðinu. Eitt ákæruatriðið gegn Margoliusi var, að hann hefði gert viðskiptasamninga við auðvaldsríki eins og Ísland. Morgunblaðið spurði, hvenær orðið hefði dauðasök að kaupa fisk af Íslendingum. Þjóðviljinn svaraði: „Reyndust sakborningarnir sekir um landráð, njósnir og skemmdarverk, en svo vel hafði verið að rannsókn unnið, að enginn hinna ákærðu treystist til að véfengja niðurstöðurnar, heldur játuðu skilyrðislaust. Voru þeir síðan réttaðir, en þau málalok dæmdra stórbrotamanna tíðkast enn í svo til öllum löndum heims.“ Var Margolius hengdur eins og Katz.

(Þessi fróðleiksmoli birtist í Morgunblaðinu og er sóttur í væntanlega bók mína, Íslenskir kommúnistar 1918–1998.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband