15.10.2011 | 11:35
Hengdur fyrir að kaupa fisk af Íslendingum
Á tuttugustu öld hafa Íslendingar haft ýmis óvenjuleg kynni af íbúum Tékkóslóvakíu.
Sumum í Halldórseigendafélaginu íslenska gramdist, þegar ég benti á það, að Atómstöðin eftir Laxness, eitt beittasta vopn íslenskra kommúnista gegn varnarsamstarfi við Bandaríkin, væri að miklu leyti sniðin eftir skáldsögunni Sveitastúlkunni Önnu (sem hét í þýskri þýðingu af tékknesku Anna. Das Mädchen vom Lande). Höfundur sögunnar var rithöfundurinn og kommúnistinn Ivan Olbracht, en landi hans og skoðanabróðir, Otto Katz, sneri henni á þýsku.
Otto Katz var eitt stærsta tannhjólið í hinni risavöxnu áróðursvél kommúnista í Evrópu milli stríða. Undir dulnefninu André Simone skrifaði hann margar bækur, og var ein þeirra gefin hér út 1943 í þýðingu Sverris Kristjánssonar, Evrópa á glapstigum. Katz var ævintýramaður og talinn fyrirmynd Victors Lazslos í Casablanca og Kurts Mullers í Vörður við Rín (Watch on the Rhine), sem báðar voru sýndar hér á landi. Hann barðist í spænska borgarastríðinu, skipulagði undirróður meðal leikara í Hollywood og varð ritstjóri aðalblaðs kommúnista í Tékkóslóvakíu eftir valdarán þeirra þar 1948. Í hreinsunum innan kommúnistaflokksins 1952 var hann leiddur fyrir rétt og hengdur.

(Þessi fróðleiksmoli birtist í Morgunblaðinu og er sóttur í væntanlega bók mína, Íslenskir kommúnistar 19181998.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook