19.8.2011 | 08:35
Eftirminnilegur kvöldverður
Góðkunningi minn bandarískur, einn af fyrrverandi forstjórum Coca Cola, maður á áttræðisaldri, kom hingað til lands 12. ágúst til að veiða lax. Ég kannaðist líka við fyrri konu hans, sem nú er fallin frá. Hann tók með sér seinni konu sína og kynnti hana fyrir mér, og eftir að við höfðum fengið okkur drykk heima hjá mér, skruppum við á Fiskmarkaðinn í kvöldverð, en daginn eftir ætluðu þau hjónin á veiðistaðinn. Við fengum bragðgóðan mat á Fiskmarkaðnum. Ég gæddi mér á gröfnum hvali og grilluðum humarhölum og skolaði matnum niður með þurru hvítvíni frá Chile. Ég sagði þeim hjónum eins og satt er, að nóg væri af hvölum á Íslandsmiðum, meira en 40 þúsund hrefnur og meira en 20 þúsund langreyðar.
Þetta er ekki í frásögur færandi. En kona kunningja míns reyndist vera ungversk að uppruna, þótt hún væri nú svissneskur ríkisborgari. Fjölskylda hennar hafði falið gyðinga hjá sér í stríðinu, og faðir hennar hafði tekið þátt í uppreisninni 1956 og orðið að flýja land og fjölskyldan á eftir henni, hún þar á meðal, þá tíu ára að aldri. Ég sagði henni, að ég hefði nýlokið að lesa afar athyglisverða skáldsögu eftir ungverska rithöfundinn Sándor Márai, Kertin brenna niður, sem kom út fyrir nokkrum árum í þýðingu Hjalta Kristgeirssonar beint úr ungversku. Mikil dulúð hvílir yfir þessari bók, sem var raunar bönnuð í valdatíð kommúnista, ekki vegna þess að í henni væri neinn sérstakur stjórnmálaboðskapur, heldur vegna þess að þar má greina óljósan söknuð eftir hinu ungverska konungsríki Habsborgaranna: Tveir vinir, sem báðir voru foringjar í her konungsríkisins, hittast í byrjun seinni heimsstyrjaldar í kastala annars þeirra eftir fjörutíu ára aðskilnað og rifja upp gömul leyndarmál.
Ég sagði henni líka frá því, að talsvert væri skrifað um Ungverjaland í væntanlegri bók minni um íslenska kommúnista. Þeir hældu sér sumir af því að hafa kynnst vel Mátyas Rákosi, sem varð einræðisherra Ungverjalands eftir stríð. Hann var alræmdur hrotti, sem sagðist hafa fundið upp aðferð við að ná völdum, smábitaaðferðina. Einnig sagði ég henni, að annar ungverskur kommúnisti kæmi nokkuð við sögu íslenskra kommúnista, Mihály Farkas, og ekki væri hann geðfelldari. Hún kannaðist auðvitað við báða þessa þrjóta. Áttum við nokkurt spjall um ungverska sögu og bókmenntir.
Einnig sagði ég hinum ungverska gesti, að ég hefði iðulega á fyrri tíð, þegar ég háði kappræður við þá Halldór Guðmundsson, Má Guðmundsson og aðra kommúnista í skólum landsins, lokið ræðum mínum á vísuorðum ungverska þjóðskáldsins Petöfis, sem Steingrímur Thorsteinsson þýddi:
Upp nú, lýður, land þitt verðu!
Loks þér tvíkost boðinn sérðu:
Þjóðar frelsi, þrældóms helsi.
Þú sérð muninn, kjóstu frelsi!
Þá táraðist ungverska konan, sem flúið hafði frá landi sínu tíu ára, og fór með ljóðið á ungversku. Þetta var eftirminnileg stund.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:37 | Facebook