Stjórnmálaskoðun Jóns Sigurðssonar

Í dag er tvö hundruð ára afmæli Jóns Sigurðssonar og eitt hundrað ára afmæli Háskóla Íslands. Menn tala spaklega um það, að aðrir megi ekki eigna sér Jón í deilumálum okkar daga, til dæmis um Evrópusambandið og Atlantshafsbandalagið.

1079.jpgÞegar Jónas Jónsson frá Hriflu gerði sér títt um Einar Benediktsson nýlátinn, sögðu þeir Halldór Kiljan Laxness og Steinn Steinarr, að hér væri sú nýlunda á ferð, að lifandi draugur eltist við látinn mann. Í þessari fyndni þeirra var sannleikskorn. Við getum ekki ætlast til þess, að Jón Sigurðsson hafi skoðun á deilumálum okkar daga.

En Jón Sigurðsson hafði stjórnmálaskoðun, og hún kom mjög vel fram í ritum hans og er auðflokkanleg. Hann var klassískur frjálshyggjumaður með íhaldssömu ívafi. Hann bjó mestallan sinn aldur í Kaupmannahöfn, og hann taldi eins og margir aðrir frjálslyndir menntamenn á meginlandi Evrópu, að við ættum að horfa til Breta, sem höfðu í langri þróun sett ríkisvaldinu takmörk og tryggt réttindi einstaklinga.

Tveir helstu stjórnmálahugsuðir Breta höfðu sett fram þær hugmyndir, sem klassísk frjálshyggja hvílir á. John Locke vissi, að mennirnir eru misjafnir, ekki síst valdsmennirnir, og vildi því binda hendur þeirra, dreifa valdinu, mynda mótvægi við ríkisvaldinu. Adam Smith lýsti því hins vegar, hvernig sjálfsprottin samvinna getur í krafti frjálsra viðskipta leyst af hólmi valdbeitingu og kúgun eins manns á öðrum og stuðlað um leið að hagsæld.

Jón Sigurðsson stóð á þrítugu, þegar hann birti greinina „Um Alþing á Íslandi“ 1841, þar sem hann sagði:

Frelsi manna á ekki að vera bundið nema þar, sem öllu félaginu (þjóðinni) mætti verða skaði, að það gengi fram.

Ári síðar skrifaði Jón í Ný félagsrit:

Þá hefir menntunin verið mest, þegar mestar hafa verið utanferðir og Íslendingar átt mest viðskipti við önnur lönd; þó ekki við eitt land, heldur mörg.

Og í þriðja árgangi Nýrra félagsrita 1843 sagði Jón:

Þar er grundvölluð á framför og velgengni mannkynsins, að hver býti öðrum gæðum þeim, sem hann hefir, og allir styðji eftir megni hver annan. … Þegar nú verslanin er frjáls, þá leitar hver þjóð með það, sem hún hefir aflögu, þangað sem hún getur fengið það, sem hún girnist.

Í ritgerðinni „Um félagsskap og samtök“ 1844 benti Jón á góða reynslu af einstaklingsframtaki á Bretlandi, og  mörgum árum síðar, 1860, skrifaði hann:

Maður verður að venja sig af að treysta á stjórnina eina sér til hjálpar og venja sig á að nota sína eigin krafta; maður verður að læra að samlaga þessa krafta, svo þeir geti unnið saman til almennra heilla.

Jón sá glögglega, að verkefnið í stjórnmálum er ekki að fylkja öllum saman um eina stefnu og láta þá síðan þramma í þá átt, heldur að leyfa sjálfstæðum einstaklingum að velja sér markmið og reyna síðan að tryggja eðlilegt samstarf þeirra innan marka laga og almenns velsæmis.

Í bréfi til bróður síns 1866 skrifaði Jón:

Frelsið er ekki í því að lifa einn sér og eiga ekki viðskipti við neinn. Ég efast um, að Símon Stylites eða Díógenes hafi verið frjálsari en hver önnur óbundin manneskja. Frelsið kemur að vísu mest hjá manni sjálfum, en ekkert frelsi, sem snertir mannfélagið, kemur fram nema í viðskiptum, og þau eru því nauðsynleg til frelsis.

Fræg er síðan frásögnin af því frá 1875, þegar kom fram heilbrigð íhaldssemi Jóns Sigurðssonar og virðing fyrir óskráðum reglum og venjum, sem setja okkur skorður og skilyrði, eins og vera ber. Gestur Pálsson hafði ort kvæði um, að Jón væri kappi, sem þekkti engin bönd. Jón „kastaði eindregið frá sér þeim ummælum, að hann hefði aldrei bönd þekkt, að þola stjórn og bönd væri eitt af skilyrðunum fyrir því að geta orðið nýtur maður“. Jón hélt áfram og sagði lærisveinum sínum, að „bönd væru jafnnauðsynleg inn á við sem út á við, jafnnauðsynleg fyrir líf einstakra manna sem þjóða, og frelsið án banda, án takmörkunar, væri ekki frelsi, heldur agaleysi og óstjórn“.

Í Gísla sögu Súrssonar sagði, þegar vandræði hófust, illmæli, mannvíg og hefndir, að öll vötn rynnu til Dýrafjarðar. En af Jóni Sigurðssyni má svo margt læra, að í nánustu framtíð renna vonandi öll vötn til Arnarfjarðar.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband