Drjúgir með sig

Líklega telja allir þeir, sem sækjast eftir þingsetu, sjálfa sig merkari en flest annað fólk, svo að ekki sé á þá minnst, sem kjöri ná. En þeir fara misjafnlega vel með hið mikla sjálfsálit sitt. Stundum hrekkur eitthvað úr munni þeirra eða penna, sem kemur upp um það.

Eitt dæmi er úr áramótagrein í Alþýðublaðinu 31. desember 1942 eftir Stefán Jóhann Stefánsson, formann Alþýðuflokksins. Eftir þrátefli á Alþingi milli formanna stærstu flokkanna, þeirra Hermanns Jónassonar og Ólafs Thors, en hvorugur gat unnt hinum þess að verða forsætisráðherra, hafði Sveinn Björnsson ríkisstjóri í nóvember 1942 skipað utanþingsstjórn. Stefán Jóhann skrifaði um hina nýju ráðherra: „En hitt er þó vitað, að flesta þá menn, er stjórnina skipa, skortir leikni hinna æfðu stjórnmálamanna.“

Var „leikni hinna æfðu stjórnmálamanna“ óspart höfð í flimtingum næstu árin.

Annað dæmi var það, sem Gísli Sveinsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði á Þingvöllum að kvöldi 17. júní 1944 við Vestur-Íslendinginn Valdimar Björnsson: „Ja, mikið er á eins manns herðar lagt að stofna lýðveldi á Íslandi.“ Gísli hafði sem forseti sameinaðs þings stjórnað athöfninni fyrr um daginn, þegar lýðveldi var stofnað og forseti þess kjörinn.

Mikið gys var gert að oflæti Gísla. Eftir að hann var skipaður fyrsti sendiherra Íslands í Noregi, barst utanríkisráðuneytinu íslenska dulmálsskeyti frá Pétri Benediktssyni sendiherra, sem var maður gamansamur. Þegar það var ráðið, reyndist textinn vera: „Á að stofna lýðveldi í Noregi?“

Ekki fór heldur á milli mála, við hvern Björn Pálsson, þingmaður Framsóknarflokksins og frændi minn af Guðlaugsstaðakyni, átti, þegar hann sagði eftir lát Ólafs Thors á gamlársdag 1964: „Nú er bara einn skemmtilegur maður eftir á Alþingi.“

En til er það einnig, að þingmenn geri ekkert til að leyna sjálfsáliti sínu og metnaði. Jón Baldvin Hannibalsson lýsti til dæmis eitt sinn yfir á samkomu gamalla nemenda íslenskra í Edinborgarháskóla: „Ég er eini Íslendingurinn, sem hef lært til þess að verða forsætisráðherra.“ Í baráttunni fyrir þingkosningarnar 1987 skopaðist Steingrímur Hermannsson forsætisráðherra mjög að þessari yfirlýsingu.

(Þessi fróðleiksmoli birtist í Morgunblaðinu 4. júní 2011 og er sóttur í ýmsa staði í bók mína, Kjarna málsins. Fleyg orð á íslensku, sem til er í öllum bókabúðum og er hentug útskriftargjöf.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband