29.5.2011 | 18:53
Steingrímur J. Sigfússon afhenti erlendum okurkörlum bankana
Þetta er verra en glæpur, þetta er heimska, sagði franski stjórnmálamaðurinn Antoine Boulay, þegar hann frétti, að Napóleon hefði framið ódæði eitt að nauðsynjalausu.
Hið sama má segja um þá gjörð Steingríms J. Sigfússonar að afhenda erlendum okurkörlum meiri hlutann í tveimur nýju bankanna, Arion og Íslandsbanka. Þessi gjörð er að vísu glæpur, en hún er líka heimska. Hinir svonefndu erlendu kröfuhafar eru sjaldnast fyrirtækin, sem veittu íslensku bönkunum lán, heldur sérhæfð innheimtufyrirtæki, sem kaupa kröfur með miklum afslætti og reyna síðan að fá sem mest upp í þær.
Við erum hér ekki að tala um venjulega banka eða fjármálastofnanir, heldur vogunarsjóði og innheimtufyrirtæki. Þetta eru hræfuglarnir, sem voma yfir hinum alþjóðlega lánsfjármarkaði og stinga sér ákafir niður, þegar þeir sjá vænlega bráð, til dæmis heimskan og illgjarnan fjármálaráðherra í litlu landi. Enga nauðsyn bar til að láta undan óskum þeirra um að afhenda þeim stóra eignarhluta í tveimur bankanna.
Steingrímur skeytti engu um viðvaranir Fjármálaeftirlitsins og breytti þeirri stefnu, sem áður hafði verið mörkuð. Erlend innheimtufyrirtæki eru verstu samstarfsmenn, sem má hugsa sér. Þau hafa engan áhuga á raunverulegri endurreisn íslenska bankakerfisins, heldur á því að fá sem mest sem fyrst upp í kröfur sínar.
Hefði ríkið fjármagnað alla þrjá bankana, eignast þá og rekið (auðvitað til að selja þá síðar), gerðu áætlanir ráð fyrir, að það myndi kosta samtals 385 milljarða. En ríkið hefur þegar lagt í kostnað upp á 406 milljarða til bankanna. (Þar af er lausafjárfyrirgreiðsla í erlendri mynt, sem nemur einum sjötta gjaldeyrisforðans.) Þetta reyndist því vera dýrari lausn. Og munurinn er sá, að útlendir okurkarlar, sem eru svo sannarlegri ekki skárri en hinir íslensku, hafa nú forræði á tveimur af þremur bönkunum. Þegar verðmæti bankanna eykst, mun sú verðmætisaukning lenda hjá þessum okurkörlum, ekki hjá íslenskum fyrirtækjum og heimilum.
Þetta er annað af tveimur dæmum um það, hvernig Steingrímur J. Sigfússon hefur stórlega vanrækt að gæta þeirra hagsmuna, sem honum var trúað fyrir. Hitt er auðvitað Icesave-málið, sem hér þarf ekki að hafa nein orð um. Eigi að láta einhvern ráðherra sæta ábyrgð fyrir Landsdómi, þá er hann Steingrímur J. Sigfússon.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook