Finnagaldur fyrr og nú

Flestir Íslendingar höfðu ríka samúð með Finnum, þegar Stalín réðst inn í land þeirra í desemberbyrjun 1939, í upphafi heimsstyrjaldarinnar síðari. Dáðust menn að frækilegri vörn smáþjóðarinnar.

Ekki voru þó allir Íslendingar sammála. Það mun hafa verið Brynjólfur Bjarnason, sem smíðaði háðsyrðið „Finnagaldur“ um stuðning Íslendinga við Finna. Orðið kemur fyrst fyrir í þeirri merkingu, svo að ég viti, í fyrirsögn greinar eftir hann í Þjóðviljanum 7. desember 1939. Tóku þrír einörðustu stalínistar landsins, þeir Þórbergur Þórðarson, Halldór Kiljan Laxness og séra Gunnar Benediktsson, það óðar upp í skrifum sínum.

Það jók á áhrifamátt orðsins, að í fornu máli voru Samar í norðurhluta Noregs, Svíþjóðar og Finnlands nefndir „Finnar“ og þóttu göldróttir.

Þegar Finnar neyddust til þess í mars 1940 að ganga að flestum kröfum Kremlverja í því skyni að ljúka stríðinu, voru margir Íslendingar daprir og reiðir fyrir þeirra hönd. Hermann Jónasson forsætisráðherra var 14. mars 1940 staddur inni í ráðherraherberginu svonefnda inn af sal efri deildar, sem var. Fór hann hörðum orðum um þjónkun íslenskra stalínista við Moskvumenn. Brynjólfur Bjarnason heyrði til hans og kallaði til hans, að hann væri landsfrægur fyrir heimsku. Rak Hermann Brynjólfi þá löðrung, svo að í small.

Þegar Brynjólfur bar sig upp undan þessu við þingforseta, kvaddi Hermann sér hljóðs og mælti: „Það er gamall og góður íslenskur siður, sem hefur verið notaður í mörg hundruð ár við stráka, sem eru óprúttnir í orðum, að gefa hinn svokallaða íslenska kinnhest.“

Hafa því fleiri íslenskir stjórnmálamenn „heilsað að sjómannasið“ en Árni Johnsen.

Raunar var kinnhestur Hermanns rifjaður upp á þingi níu árum síðar, 31. mars 1949. Stúlka ein, Margrét Anna Þórðardóttir, hafði slegið til Stefáns Jóhanns Stefánssonar forsætisráðherra, er hann hafði gengið út úr þinghúsinu daginn áður eftir óeirðir á Austurvelli. Brynjólfur Bjarnason sagði af því tilefni: „Hún hefði átt að fá verðlaun!“ Ólafur Thors greip þá fram í: „Ekki var Hermann verðlaunaður, þegar hann gaf þér á kjaftinn!“

(Þessi fróðleiksmoli birtist í Morgunblaðinu 21. maí 2011 og er sóttur í ýmsa staði í bók mína, Kjarna málsins. Fleyg orð á íslensku, en hún er afar hentug útskriftargjöf og selst raunar eins og heitar lummur í því skyni þessa dagana.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband